Körfubolti

Sá þaulsætnasti í sögunni stýrir Íslandi áfram

Sindri Sverrisson skrifar
Craig Pedersen fór með Íslandi á EM 2015 og 2017 og gæti mögulega stýrt liðinu á HM á næsta ári.
Craig Pedersen fór með Íslandi á EM 2015 og 2017 og gæti mögulega stýrt liðinu á HM á næsta ári. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Eini landsliðsþjálfarinn sem komið hefur Íslandi í lokakeppni stórmóts í körfubolta, Kanadamaðurinn Craig Pedersen, skrifaði í Laugardalshöllinni í dag undir samning þess efnis að hann þjálfi áfram íslenska karlalandsliðið.

Samningurinn sem Craig undirritaði gildir út undankeppni EM 2025, og fram yfir lokakeppnina ef Ísland kemst þangað, og því ljóst að hann mun stýra íslenska landsliðinu í að minnsta kosti áratug.

Craig, sem er 57 ára, tók nefnilega við landsliðinu í ársbyrjun 2014 og stýrði því inn í lokakeppni EM 2015 og EM 2017. Hann á möguleika á að gera Ísland að fámennustu þjóð sögunnar til að spila á HM á næsta ári, en til þess þarf liðið á góðum úrslitum að halda á föstudag gegn Georgíu í Laugardalshöll og gegn Úkraínu í Lettlandi á mánudag.

Áður en hann tók við Íslandi hafði hann verið aðstoðarþjálfari danska landsliðsins og stýrt danska liðinu Svendborg Rabbits við afar góðan orðstír.

Craig tók við íslenska liðinu í lok janúar 2014 og hefur því verið þjálfari liðsins í 3.204 daga. Enginn þjálfari hefur stýrt liðinu samfleytt í svo langan tíma. 

Einar Bollason stýrði þó liðinu lengur, ýmist einn eða með öðrum þjálfara, en með nokkrum hléum, samtals í 3.780 daga samkvæmt yfirliti á vef KKÍ. Craig mun taka fram úr Einari í þessum efnum starfi hann út samningstímann.

Baldur Þór Ragnarsson og Hjalti Þór Vilhjálmsson skrifuðu einnig undir samning þess efnis að verða áfram aðstoðarþjálfarar. Baldur, sem þjálfar varalið Ratiopharm Ulm í Þýskalandi, hefur verið aðstoðarmaður Craigs frá því í árslok 2015. Hjalti, þjálfari Keflavíkur, tók við sem aðstoðarþjálfari af Finni Frey Stefánssyni undir lok árs 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×