Körfubolti

„Tilfinningin er að við þurfum að eiga okkar besta leik“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Haukur Helgi Pálsson er klár í slaginn.
Haukur Helgi Pálsson er klár í slaginn. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska landsliðið í körfubolta leikur einn sinn mikilvægasta leik í sögunni gegn Georgíu í undankeppni heimsmeistaramótsins annað kvöld. Með sigri færist íslenska liðið skrefi nær lokakeppni heimsmeistsramótsins.

„Ég held að við séum allir bara stemmdir og klárir í verkefnið,“ sagði landsliðsmaðurinn Kristófer Acox í samtali við Guðjón Guðmundsson, Gaupa, í dag.

„Þetta verður auðvitað erfitt eins og allir þessir leikir. Við erum komnir það langt að samkepnin verður erfiðari. En við erum allir bara klárir og ætlum allavega að gefa okkur alla í þetta og ég held að það muni koma okkur helvíti langt.“

„Við erum aldrei að fara að mæta einhverjum auðveldum andstæðingi, en við erum líka bara flottir og þá sértaklega hérna heima. Þannig við verðum svolítið að treysta á það að við verðum klárir. Þetta verður erfitt, vissulega, en ég held að við séum í góðu færi.“

Klippa: Einn mikilvægasti leikur körfuboltalandsliðsins annað kvöld

Haukur Helgi Pálsson, sem glímt hefur við meiðsli, er klár í slaginn gegn Georgíu annað kvöld og verðu með íslenska liðinu.

„Ég fékk í nárann fyrir þremur vikum á einni æfingunni og það er aðeins búið að vera að plaga mig. En Valdi er búinn að vera að sjá vel um mig þannig ég er bara góður,“ sagði Haukur.

Haukur hefur þurft að glíma við mikil meiðsli á ferli sínum og Gaupi grínaðist með það að hann hafi verið heill í um sex ár af ellefu ára landsliðsferli sínum.

„Já það er eitthvað svoleiðis,“ sagði Haukur léttur. „Ég er búinn að vera svolítið í brasi með líkamann á mér. En þetta eru orðin ellefu ár, það er ágætur tími.“

En hvernig leggst þessi leikur gegn Georgíu í Hauk?

„Það er náttúrulega alltaf einhver pressa sem fylgir, þetta eru náttúrulega risaleikir. En við höfum alveg spilað svona leiki áður þannig séð og þetta er bara eins og hver annar leikur. En tilfinningin er að við þurfum að eiga okkar besta leik,“ sagði Haukur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×