Sport

NFL deildin flýr snjóinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Buffalo Bills tók á móti Indianapolis Colts í miklum snjóleik fyrir nokkrum árum.
Buffalo Bills tók á móti Indianapolis Colts í miklum snjóleik fyrir nokkrum árum. Getty/Tom Szczerbowski

Það þarf jafnan mikið að gerast til þess að NFL leikir fari ekki fram enda eru þeir þekktir fyrir að vera spilaðir í nánast öllum veðrum og vindum. Eða næstum því öllum.

Margir voru farnir að bíða spenntir eftir klassískum snjóleik í Buffalo um helgina en NFL-deildin ákvað hins vegar að flýja snjóinn og færa leikinn.

Leikur Buffalo Bills og Cleveland Browns átti að fara fram í Buffalo en mjög slæm veðurspá verður til þess að leikurinn verður spilaður í Detriot.

Það er ekki langt til Detriot en þar ver Ford Field alla fyrir veðri og vindum því hann er yfirbyggður.

Það hafa nokkrum sinnum farið fram leikir í mikilli snjókomu í Buffalo en þar verður snjókoman oft mikil við ákveðin skilyrði þökk sé áhrifum frá Erie-vatni.

Það er búist við snjókomu upp á fimm fet, einn og hálfur metri, í Buffalo þar til á sunnudaginn þegar leikurinn fer fram.

Leikvangurinn í Buffalo er ekki yfirbyggður og því verður þar allt á kafi í snjó.

Það er ekki bara snjórinn sem yrði til vandræða því einnig er spáð miklum vindi og jafnvel þrumuveðri á þeim tíma sem leikurinn átti að fara fram.

Buffalo Bills verður því að sætta sig við að missa þennan heimaleik sinn.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×