Viðskipti innlent

Halldór og Róbert slíðra sverðin

Kjartan Kjartansson skrifar
Halldór Kristmannsson (t.v.) og Róbert Wessman (t.h.). Sá fyrrnefndi sakaði þann síðarnefnda um alvarleg brot í bréfi sem hann skrifaði Alvogen í fyrra.
Halldór Kristmannsson (t.v.) og Róbert Wessman (t.h.). Sá fyrrnefndi sakaði þann síðarnefnda um alvarleg brot í bréfi sem hann skrifaði Alvogen í fyrra.

Sættir hafa náðst á milli lyfjafyrirtækisins Alvogen og Halldórs Kristmannssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra, sem bar Róbert Wessman forstjóra þess þungum sökum í fyrra. Alvogen féll frá málsókn gegn Halldóri sem segist nú ekki lengur hafa stöðu uppljóstrara.

Halldór skrifaði stjórn Alvogen bréf þar sem hann sakaði Róbert um að hafa beitt sig ofbeldi og hótað starfsmönnum og meintum óvildarmönnum lífláti í mars í fyrra. Vildi hann að stjórnin viki Róberti úr starfi forstjóra. Hélt Halldór því fram að hann hefði stigið fram sem uppljóstrari innan Alvogen og Alvotech.

Alvogen stefndi Halldóri fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og átti málflutningur að hefjast í haust. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu í dag segir að sættir hafi náðst í málinu og að það hafi fallið frá málsókninni í kjölfarið.

Halldór muni loka vefsíðu sem hann hefur haldið úti með ásökunum sínum. Hann hafi jafnframt lýst því yfir að hann hafi ekki stöðu uppljóstrara í neinni lögsögu.

„Jafnframt hefur hann lýst því yfir að hann uni þeirri niðurstöðu stjórnar að lýsa yfir trausti til Róberts í kjölfar rannsóknarinnar,“ segir í yfirlýsingu Alvogen en þar vísar fyrirtækið til rannsóknar óháðra sérfræðinga á ásökunum Halldórs um starfshætti Róberts.

Halldór segir í skriflegu erindi til Vísis að samkomulagið sé á milli hans og Alvogen í Bandaríkjunum og að það feli í sér fjárhagsuppgjör. Alvogen hafi greitt honum laun, áunna kaupauka og útlagðan lögmannskostnað. Að öðru leyti ríki trúnaður um samkomulagið.

Halldór segist í dag búsettur í Sviss ásamt fjölskyldu sinni þar sem sinni fjárfestingum.


Tengdar fréttir

Hall­dór þarf ekki að leggja fram tölvu­pósta og greina­gerð

Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Alvogen og Alvotech, þarf ekki að verða við dómkröfu Björgólfs Thors um að leggja fram tugi tölvupósta, greinargerð og önnur dómsskjöl í máli Alvogen gegn Halldóri. Björgólfur stendur nú í málaferlum vegna falls Landsbankans árið 2008 og gerði kröfuna í tengslum við þau skaðabótamál.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×