En það eru alls kyns aðrar tilfinningar sem láta bæra á sér líka í kjölfar uppsagna.
Til dæmis léttirinn hjá þeim sem eftir eru, yfir því að hafa ekki verið sagt upp. Þakklæti líka.
Síðan samviskubitið yfir því að finna þennan feginleika. Jafnvel samviskubit yfir því að hafa haldið vinnunni, að einhverjum öðrum hafi verið sagt upp en okkur.
Í umfjöllun Harvard Business Review er sagt frá niðurstöðum rannsóknar um það hvernig starfsfólk upplifir áhrif uppsagna á vinnustað fyrst eftir að þeim lýkur.
Helstu niðurstöður eru:
74% segja að uppsagnirnar hafi haft áhrif á afkastagetuna
69% á gæði vinnuframlags þeirra.
Þegar svarendur voru beðnir um að skýra hvaða líðan hjá þeim hefði þau áhrif að það væri að bitna á afköst eða gæðum, voru svörin helst:
Samviskubit, kvíði, reiði/uppnám.
Stjórnendum er því bent á að í kjölfar uppsagna á vinnustað, er mikilvægt að hlúa að hópnum með tilliti til þess að starfsfólk er að upplifa alls kyns tilfinningar. Að starfsfólk sé vel upplýst og upplifi tilgang eru ráð sem nefnd eru sérstaklega.
Þá sýna rannsóknir að sýnileiki stjórnenda í kjölfar uppsagna er mjög mikilvægur. Þannig sýna niðurstöður rannsókna að á þeim vinnustöðum þar sem starfsfólk upplifði stjórnendur sýnilega og til staðar í kjölfar uppsagna, voru líkurnar á áhrifum á afkastagetu eða gæðum mun minni en ella.
Sýnileiki stjórnenda eykur jafnframt líkurnar á að tilfinningarnar sem bærast hjá starfsfólki í kjölfar uppsagna, verða skammlífari.
Þó þarf að huga að þeim áhrifum sem uppsagnir geta haft á sumt starfsfólk umfram annað.
Því í sumum tilvikum upplifir fólk sorg í kjölfar uppsagna.
Það skýrist einfaldlega af því að hjá okkur flestum er vinnan og lífið ekki tvö aðskilin fyrirbæri: Við eignumst og eigum góða vini í vinnunni.
Þetta þýðir að starfsfólk sem missti góðan vin úr vinnu vegna uppsagna á vinnustaðnum, getur liðið illa í langan tíma á eftir. Upplifað sorg og leiða, verið utan við sig og svo framvegis.