Myndin er leikstýrð af Elizabeth Banks en mun þetta vera fjórða kvikmynd hennar. Hún leikstýrði einnig kvikmyndum á borð við Pitch Perfect 2 og Charlie's Angels. Þá hefur hún leikið í fjölda kvikmynda og þáttum, meðal annars Modern Family, Hunger Games og 30 Rock.
Kvikmyndin fjallar um björn sem finnur kókaín sem kastað hafði verið úr flugvél. Hann étur kókaínið og fer að myrða fólk í skóginum þar sem hann býr.
Þrátt fyrir að söguþráðurinn hljómi mjög hæpinn og ótrúverðugur er hann byggður á sannsögulegum atburðum. Árið 1985 fóru rannsóknarlögreglumenn í ferð í Chattahoochee-Oconee skóginn í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum til að leita að kókaíni sem smyglarar höfðu kastað úr flugvél.
Samtals höfðu smyglararnir kastað fjörutíu kílóum af kókaíni úr vélinni og var götuvirði efnanna á þeim tíma tuttugu milljónir dollara, rúmir 2,8 milljarðar íslenskra króna. Við leitina fannst stór svartbjörn sem hafði drepist. Í ljós kom að hann hafði étið kókaínið og fengið hjartaáfall.
Fyrstu stiklu kvikmyndarinnar má sjá hér fyrir ofan en með hlutverk myndarinnar fara Ray heitinn Liotta sem lést fyrr á árinu, Keri Russell,Margo Martindale, O'Shea Jackson Jr, Jesse Tyler Ferguson og Alden Ehrenreich.