Fótbolti

Kynþokkafullur Kóreumaður leikur sama leik og Rúrik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mun Cho Gue-sung vinna þýskan dansþátt eins og Rúrik Gíslason.
Mun Cho Gue-sung vinna þýskan dansþátt eins og Rúrik Gíslason. vísir/getty

Fjöldi fylgjenda suður-kóreska framherjans Cho Gue-sung á Instagram hefur margfaldast síðan að HM í Katar hófst, ekki ósvipað því sem gerðist hjá Rúrik Gíslasyni á HM í Rússlandi fyrir fjórum árum.

Cho skoraði bæði mörk Suður-Kóreu í 3-2 tapinu fyrir Gana með flottum kollspyrnum. Það hafði sitt að segja með auknar vinsældir hans á samfélagsmiðlar að gera en einnig að Cho þykir með myndarlegri mönnum.

Fyrir HM var hann með um tuttugu þúsund fylgjendur á Instagram. Núna eru þeir 1,6 milljónir. Þokkalegasta ávöxtun þar á ferðinni.

Áreitið á Cho er mikið og hann neyddist til að slökkva á símanum sínum vegna fjölda skilaboða, bónorða og annars í þeim dúr.

„Hann þurfti að fá smá hvíld. Síminn hans var á fullu alla nóttina og hélt fyrir honum vöku. Hann reyndi að einbeita sér að fótboltanum en skilaboðin hrönnuðust inn,“ sagði suður-kóreski blaðamaðurinn Seo Jung-hwan í frétt The Athletic um ótrúlegar vinsældir Chos.

Þær minna um margt á athyglina sem Rúrik fékk á HM í Rússlandi. Hann vakti þar ekki bara athygli fyrir frammistöðu sína inni á vellinum heldur einnig fyrir fegurð og þokka. Rúrik varð skyndilega stjarna á Instagram og vinsældir hans þar opnuðu ýmsar dyr fyrir hann. Hann hefur meðal annars leikið í bíómynd, setið fyrir í frægum tímaritum og vann dansþátt í Þýskalandi.

Cho og félagar hans í suður-kóreska landsliðinu mæta Portúgal í lokaleik sínum í H-riðli heimsmeistaramótsins í dag. Suður-Kórea þarf að vinna og treysta á hagstæð úrslit í leik Gana og Úrúgvæ til að komast í sextán liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×