Sport

Mikið baulað í endurkomunni eftir langt bann

Valur Páll Eiríksson skrifar
Deshaun Watson var ásakaður um kynferðislegt misferli af 24 konum hið minnsta.
Deshaun Watson var ásakaður um kynferðislegt misferli af 24 konum hið minnsta. Carmen Mandato/Getty Images

Deshaun Watson sneri aftur á fótboltavöllinn í gærkvöld er lið hans Cleveland Browns hafði betur gegn fyrrum liði hans Houston Texans. Mikið var baulað á Watson sem átti erfitt uppdráttar í sínum fyrsta NFL-leik í um tvö ár.

Watson var settur til hliðar hjá Houston á miðju þarsíðasta tímabili þar sem hann krafðist þess að fá skipti frá félaginu. Í kjölfarið litu ásakanir á hendur honum fyrir ítrekuð kynferðisbrot dagsins ljós. Þrátt fyrir ásakanirnar, sem skiptu tugum, fékk hann skipti til Cleveland hvar hann er á risasamningi.

Hann fékk hins vegar ekki að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið þar til í gær þar sem NFL-deildin dæmdi hann í ellefu leikja bann vegna athæfis síns í sumar og sektaði að auki um það sem nemur 700 milljónum króna. Um var að ræða fyrsta leik hans í deild í 700 daga.

Fyrsti leikur hans var á gamla heimavellinum, er Browns heimsóttu Texans til Houston. Watson var ekki vel tekið á hálftómum gömlum heimavelli sínum og var baulað hressilega á hann í hvert skipti sem hann handlék boltann.

Mikið ryð var í Watson sem náði ekki að kasta fyrir einu einasta snertimarki en naut góðs af sterkri vörn Browns sem skoraði þrjú snertimörk í leiknum í 27-14 sigri á Texans-liði sem hefur verið það versta í deildinni í vetur.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×