Körfubolti

Dagný Lísa handleggsbrotin: „Það er á­kveðinn skellur“

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson skrifar
Dagný Lísa í leik gegn Njarðvík.
Dagný Lísa í leik gegn Njarðvík. Vísir/Bára

Kristjana Eir Jónsdóttir, þjálfari Fjölnis, var svekkt með tapið gegn Haukum í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld en stolt samt sem áður af sínu liði enda tveir erlendir leikmenn liðsins fárveikur og þá handleggsbrotnaði Dagný Lísa Davíðsdóttir í leiknum.

„Ég er ánægð með hvernig stelpurnar stóðu upp í hvert einasta skipti. Ég held að ég hafi aldrei fengið eins mörg högg í einum leik. Ég sagði það fyrir leik að tveir lykilmenn væru veikir og Dagný  handleggsbrotnar í leiknum. Síðan eru tveir leikmenn dæmdir út af með fimm villur. Að mínu mati var það ósanngjarnt en sitt sýnist hverjum,“ sagði Kristjana.

„Við stóðum alltaf aftur upp og héldum áfram. Ég er ánægð með það en líka svekkt með tapið.“

Taylor Dominique Jones, bandaríski leikmaðurinn í liði Fjölnis, spilaði veik og það gerði austurríska landsliðskonan, Simone Sill, einnig.

„Taylor er fárveik og það er Simone líka,“ sagði Kristjana.

Landsliðskonan Dagný Lísa Davíðsdóttir handleggsbrotnaði þá í öðrum leikhluta og verður lengi frá.

„Það er komið í ljós að hún er handleggsbrotin og er frá í sex til átta vikur. Það er ákveðinn skellur.“

„Við verðum bara að tækla þetta eins og við tækluðum þriðja leikhlutann. Það kemur bara maður í manns stað og við verðum að stíga upp. Því miður fór of mikil orka í það að vinna upp þennan 17 stiga mun og það háði okkur í fjórða leikhluta. Ég hafði fulla trú á því að við gætum unnið leikinn en því miður hafðist það ekki í fjórða.“

„Það eru enn fimm leikmenn inn á vellinum og við verðum að halda áfram að gera okkar besta til að ná í sigra,” sagði Kristjana að lokum.

Fjölnir er í 6. sæti af 8 liðum með 8 stig að loknum 12 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×