Innherji

Sjóður Alfa Fram­taks gerir yfir­töku­til­boð í Origo og skoðar af­skráningu fé­lagsins

Hörður Ægisson skrifar
Tilboðsverðið er 14,4 prósent hærra en veltuleiðrétt meðalverð hlutabréfa í Origo að teknu tilliti til lækkunar hlutafjár frá tilkynningu um sölu Tempo í byrjun októbermánaðar.
Tilboðsverðið er 14,4 prósent hærra en veltuleiðrétt meðalverð hlutabréfa í Origo að teknu tilliti til lækkunar hlutafjár frá tilkynningu um sölu Tempo í byrjun októbermánaðar. Vísir/Vilhelm

Félag í eigu framtakssjóðs í rekstri Alfa Framtaks hefur keypt tæplega 26 prósenta hlut í Origo og hefur ákveðið að gera tilboð í alla útistandandi hluti félagsins fyrir 101 krónu á hlut. Það er jafnhátt og síðasta viðskiptaverð hluta Origo við lokun markaða á föstudag og verðmetur félagið á rúmlega 14 milljarða.

Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar rétt eftir miðnætti í nótt en þar segir að tilboðið sé lagt fram í nafni AU 22 ehf. sem er í fullri eigu framtakssjóðsins Umbreytingar II í rekstri Alfa. 

Þá segir að til skoðunar komi hvort að óskað verði eftir afskráningu félagsins úr Kauphöllinni til að „skapa aukinn sveigjanleika fyrir þær breytingar sem ráðast þarf í,“ að því er segir í tilkynningunni.

Tilboðsverðið er 14,4 prósent hærra en veltuleiðrétt meðalverð hlutabréfa í Origo að teknu tilliti til lækkunar hlutafjár frá tilkynningu um sölu Tempo í byrjun októbermánaðar og 11 prósent hærra frá því að hlutafjárlækkun fór fram 7. desember síðastliðinn. Greitt verður fyrir hlutina með reiðufé.

Dagana 7. til 9. desember í liðinni viku hækkaði hlutabréfaverð Origo um rúmlega 20 prósent, eða úr genginu 84 upp í 101 við lokun markaða á föstudag.

Í byrjun desember var hlutafé félagsins lækkað um 24 milljarða með greiðslu til hluthafa. Það kemur til eftir að Origo seldi áður um 40 prósenta hlut sinn í Tempo fyrir samtals um 28 milljarða króna.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur meðal annars fram að Origo hafi gengið í gegnum miklar breytingar í ytra umhverfi undanfarin ár með skýjavæðingu og breyttum áherslum og kröfum viðskiptavina til upplýsingatækni. Alfa Framtak segir hafa fylgst náið með félaginu og aðdáunarverðri vegferð starfsmanna, stjórnenda og eigenda félagsins við uppbyggingu eins öflugasta upplýsingatæknifélags Íslands.

„Ákveðin kaflaskil hafa nú átt stað hjá félaginu í kjölfar sölu Tempo til fjárfestingasjóðsins Diversis Capital. Alfa Framtak vill taka þátt í þeim umbreytingum sem eru fylgifiskur slíkra kaflaskila í samvinnu við stjórnendur og aðra hluthafa með því að skerpa enn frekar á þjónustuframboði og skipulagi félagsins – viðskiptavinum og félaginu til hagsbóta. Alfa Framtak telur jafnframt eðlilegt að til skoðunar komi hvort að óskað verði eftir afskráningu félagsins úr kauphöll til að að skapa aukinn sveigjanleika fyrir þær breytingar sem ráðast þarf í,“ segir í tilkynningunni frá Alfa Framtak.

Alfa Framtak er með heildareignir í stýringu upp á um 22 milljarða króna í tveimur framtakssjóðum. Fyrr í þessum mánuði tilkynnti félagið að sjóður í rekstri þess hefði selt allan þriðjungshlut sinn í fyrirtækinu Nox Health til bandaríska fjárfestingasjóðsins Vestar Capital Partners.

Stærstu hluthafar Origo eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Birta, Stapi, Lífsverk og félag í eigu þeirra bræðra Ágústar og Lýðs Guðmundssonar ásamt Sigurði Valtýssyni.

Arion banki og LEX eru ráðgjafar Alfa Framtaks og tilboðsgjafa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×