Jólamolar Vísis munu birtast reglulega fram að jólum. Þar fáum við að kynnast þjóðþekktum einstaklingum í nýju ljósi og komast að því hvað það er sem kemur þeim í jólagírinn. Jólamolunum er ekki síður ætlað að koma lesendum Vísis í hið eina sanna hátíðarskap.
Hvort myndirðu skilgreina þig sem Elf eða The Grinch?
„Ég er hefðbundinn jólaálfur mundi ég segja.“
Hver er þín uppáhalds jólaminning?
„Hef alla tíð verið mikið jólabarn og það hefur ekki dregið úr því með árunum. Man sérlega vel eftir jólunum þegar elsti sonur minn var nýfæddur og allir og amma þeirra ákváðu að heimsækja okkur á aðfangadag. Við vorum of sein með allt og þegar mamma mætti í jólamat klukkan sex var hangikjötið nýkomið í pottinn og barnið var öskrandi af sér hausinn eftir gestagang dagsins. Við borðuðum um níuleytið gjörsamlega búin á því – en þetta var í fyrsta sinn sem við hjónin héldum jólin saman og kunnum þannig séð ekki neitt. En við vorum fljót að hlæja að þessu.“

Hver er eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Það er svo skrýtið að gjafirnar eru ekki það eftirminnilegasta við jólin. En eftirminnilegasta gjöfin er samt líklega Lundby-dúkkuhús sem ég fékk fimm ára gömul, það var með rafmagni þannig að lamparnir lýstu og ég hef sjaldan leikið mér eins mikið í neinu.“
Hver er versta jólagjöf sem þú hefur fengið?
„Ó guð, ég veit nú ekki hvort maður á að rifja upp verstu gjafirnar. En stundum hafa komið stundir þar sem ég hef bitið á jaxlinn og minnt mig á að það er hugurinn sem skiptir máli.“
Hver er uppáhalds jólahefðin þín?
„Ég er mjög hefðbundin á jólum. Jólaskrautið fer alltaf á sama stað, ég geri alltaf konfekt, sendi nokkur jólakort og bý til eplaköku eins og móðir mín gerði. En uppáhalds hefðin er samt þegar við fjölskyldan syngjum saman á aðfangadag áður en við opnum pakkana.“
Hvert er þitt uppáhalds jólalag?
„Í byrjun desember eru það Ég hlakka svo til og Þú komst með jólin til mín, þegar nær dregur eru það Líður að helgum tíðum, Helga nótt og Heims um ból.“
Hver er þín uppáhalds jólamynd?
„Jólamynd Prúðuleikaranna er í uppáhaldi þar sem þeir gera sína útfærslu af Jóladraumi Charles Dickens. Svo er Die Hard líka í uppáhaldi.“
Hvað borðar þú á aðfangadag?
„Síðast var það jólalamb sem ég eldaði upp úr jólabók Nönnu Rögnvaldardóttur. Bara það að skoða þá bók kemur mér í jólaskap. Annars erum við með hálfgert tilraunaeldhús á jólunum og óhrædd að prófa eitthvað nýtt.“
Hvers óskar þú þér í jólagjöf í ár?
„Ég vona að ég fái góðar bækur til að lesa – margt gott núna í jólabókaflóðinu sem ég hef hug á að lesa.“
Hvað er það sem hringir inn jólin fyrir þér?
„Það er nú Ríkisútvarpið sem hringir inn jólin hjá mér.“
Er eitthvað skemmtilegt á döfinni hjá þér núna fyrir jólin?
„Þingstörfin setja svip sinn á desember – en ég vona að ég nái nokkrum jólatónleikum, sérstaklega sona minna.“