Íslenski boltinn

Besta kvenna hefst á risaleik og Besta karla á Kópavogsslag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Landsliðskonurnar Agla María Albertsdóttir og Elísa Viðarsdóttir í leik Vals og Breiðabliks á Hlíðarenda í sumar.
Landsliðskonurnar Agla María Albertsdóttir og Elísa Viðarsdóttir í leik Vals og Breiðabliks á Hlíðarenda í sumar. vísir/vilhelm

Íslandsmeistarar síðustu fimm ára, Valur og Breiðablik, mætast í 1. umferð Bestu deildar kvenna. Í Bestu deild karla hefst titilvörn Breiðabliks á Kópavogsslag gegn HK.

Í dag voru drög að leikjaniðurröðun í Bestu deildunum birt. Hægt er að sjá þau á heimasíðu KSÍ.

Íslandsmeistarar Vals taka á móti Breiðabliki í upphafsleik Bestu deildar kvenna. Hann fer fram 25. apríl. Hinir fjórir leikirnir í 1. umferðinni fara fram degi seinna. 

Silfurlið Stjörnunnar fær Þór/KA í heimsókn, ÍBV og Selfoss mætast í Suðurlandsslag, nýliðar Tindastóls taka á móti Keflavík og hinir nýliðarnir, FH, fara í Laugardalinn og mæta þar Þrótti.

Svona lítur 1. umferð Bestu deildar kvenna 2023 út.ksí

Sú breyting verður á Bestu deild kvenna á næsta ári að tekin verður upp úrslitakeppni eins og var í Bestu deild karla á síðasta tímabili. Reiknað er með að hefðbundinni deildarkeppni ljúki 27. ágúst. Síðan hefst úrslitakeppni efstu sex liðanna og fjögurra neðstu.

Sjá má leikjaniðurröðun í Bestu deild kvenna með því að smella hér.

Keppni í Bestu deild karla 2023 hefst á öðrum degi páska, 10. apríl, en þá fer 1. umferðin fram í heilu lagi.

Leifur Andri Leifsson, fyrirliði HK, kemur í veg fyrir að Jason Daði Svanþórsson, leikmaður Breiðabliks, nái til boltans í leik liðanna í Kórnum á síðasta tímabili.vísir/hulda margrét

Þar mæta Íslandsmeistarar Breiðabliks nýliðum HK. Þessi lið mættust í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins síðasta sumar þar sem Blikar unnu 0-1 sigur í hörkuleik.

KA, sem endaði í 2. sæti á síðasta tímabili, fær KR í heimsókn og bikarmeistarar Víkings sækja Stjörnuna heim, Valur og ÍBV eigast við á Hlíðarenda, nýliðar Fylkis taka á móti Keflavík og Fram og FH leiða saman hesta sína í Úlfarsárdal.

Svona lítur 1. umferð Bestu deildar karla 2023 út.ksí

Gert er ráð fyrir því að hefðbundinni deildarkeppni í Bestu deild karla ljúki 3. september. Í ár kláraðist hún 17. september.

Sjá má leikjaniðurröðun í Bestu deild karla með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×