Fótbolti

Bróðir Balotelli ákærður fyrir líkamsárás

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bræðurnir Balotelli og Barwuah.
Bræðurnir Balotelli og Barwuah. Twitter

Enoch Barwuah, bróðir fyrrum ítalska landsliðsmannsins Mario Balotelli, er sagður hafa lent í áflogum rétt fyrir jól í ítölskum fjölmiðlum og á yfir höfði sér kæru fyrir líkamsárás.

Barwuah er 29 ára gamall og leikur með Ospitaletto í ítölsku fjórðu deildinni, en hann hefur áður verið dæmdur fyrir líkamsárás, fyrir um tíu árum síðan.

Hann er sagður hafa barið á 26 ára gömlum Túnisa fyrir utan næturklúbb í Brescia ásamt rapparanum Prince the Goat þann 22. desember síðastliðinn.

Fórnarlambið er sagt hafa sýnt fram á þónokkur beinbrot í andliti þegar hann tilkynnti um árásina til lögreglu.

Bróðir Barwuah, Mario Balotelli, lék með Inter og AC Milan, Manchester City og Liverpool snemma á ferlinum sem fjaraði út. Hann er í dag 32 ára gamall og leikur með Sion í Sviss en hann var liðsfélagi Birkis Bjarnasonar hjá Adana Demirspor í Tyrklandi síðasta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×