Handbolti

Strákarnir okkar í fimm daga sóttkví ef þeir smitast

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir þurfa að passa sig að smitast ekki af kórónuveirunni næstu vikunar.
Íslensku strákarnir þurfa að passa sig að smitast ekki af kórónuveirunni næstu vikunar. Getty/Sanjin Strukic

Kórónuveirustress mun áfram herja á liðin sem keppa um heimsmeistaratitilinn í handbolta seinna í þessum mánuði.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hóf í gær lokaundirbúning sinn fyrir heimsmeistaramótið í Svíþjóð.

Það muna flestir eftir því hversu mikil áhrif kórónuveiran hafði á íslenska liðið á Evrópumótinu fyrir ári síðan en hver leikmaðurinn á fætur öðrum lenti þá í sóttkví.

Kórónuveirutakmarkanir hafa fyrir löngu heyrt sögunni til hér á Íslandi en svo verður ekki á heimsmeistaramótinu.

Alþjóðahandboltasambandið hefur ákveðið strangar kórónuveirureglur á heimsmeistaramótinu.

Allir leikmenn þurfa að gangast undir kórónuveirupróf fyrir fyrsta leik á HM sem og aftur fyrir bæði milliriðla og átta liða úrslitin.

Aftonbladet segir frá þessu og birtir viðtal við sænska aðstoðarþjálfarann Michael Apelgren sem er orðinn þreyttur á öllum prófunum.

„Þetta er þreytt. Fólk hélt að þessi tími væri liðinn. Ég veit að þetta er ekki komið til vegna pressu frá okkar mótsstjórn heldur kemur þetta frá Alþjóðahandboltasambandinu,“ sagði Michael Apelgren en Svíar halda einmitt mótið ásamt Pólverjum.

Staðan er því þannig að ef leikmaður fær jákvæða niðurstöðu úr einu af þessum kórónuveiruprófum þá fer hann sjálfkrafa í fimm daga sóttkví. Sá hinn sami þarf síðan að fá neikvæðar niðurstöður úr kórónuveiruprófi áður en hann fær að spila á ný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×