Sport

Góðgerðasamtök Hamlin fengu yfir milljón dollara á nokkrum klukkutímum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsfélagar Damar Hamlin hjá Buffalo Bills biðja fyrir honum eftir atvikið í nótt.
Liðsfélagar Damar Hamlin hjá Buffalo Bills biðja fyrir honum eftir atvikið í nótt. AP/Joshua A. Bickel

Damar Hamlin, leikmaður Buffalo Bills, hné niður í leik Bills og Bengals í NFL-deildinni í nótt eftir að hafa fengið hjartastopp.

Lífgunartilraunir voru reyndar á vellinum í margar mínútur áður en Hamlin var fluttur með sjúkrabíl á Cincinnati Medical Center sjúkrahúsið. Hann er sagður þungt haldinn að því er fram kemur í yfirlýsingu frá NFL deildinni.

Leik Cincinnnati Bengals og Buffalo Bills var ekki haldið áfram og allir sem fylgdust með í sjónvarpi eða voru á staðnum voru mjög slegnir.

Aðeins nokkrum klukkutímum eftir atvikið höfðu góðgerðasamtök Damar Hamlin fengið styrki sem nema meira en milljón Bandaríkjadala eða meira en 143 milljónum íslenskra króna.

Hamlin safnar peningi fyrir árlega leikfangagjafaferð sína. Hann byrjaði árið 2020 að safna fyrir leikföngum fyrir krakka sem lifa við fátækt og upphaflega markmiðið var 2500 dollarar.

Hamlin notar peninginn til að kaupa leikföng og gefa krökkum sem minna mega sín í Buffalo samfélaginu.

Í kvöld streymdu inn styrkir á GoFundMe síðu hans.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×