Sport

Kallað eftir afsögn eftir að forseti UFC sló til eiginkonu sinnar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Dana White hefur sætt töluverðri gagnrýni.
Dana White hefur sætt töluverðri gagnrýni. vísir/getty

Dana White, forseti UFC bardagasamtakanna, hefur beðist afsökunar á því að hafa ítrekað slegið eiginkonu sína á nýársnótt eftir að myndskeið af atvikinu birtist á vefmiðlum í gær. Hann kveðst eiga sér engar málsbætur í málinu.

Myndskeiðið fór á flakk eftir að miðillinn TMZ birti það fyrst vestanhafs og kallaði eðlilega á hörð viðbrögð víða af. Fjölmargir hafa kallað eftir afsögn White úr forsetastóli UFC vegna málsins.

Á myndskeiðinu sést kastast í kekki milli hjónanna til 26 ára, þeirra Dana og Anne White. Anne virðist þar í miklu uppnámi og slær Dana utan undir. Hann svaraði fyrir sig með því að slá ítrekað til hennar á móti, áður en þeim var stíað í sundur.

Í samtali við TMZ segir Dana að hegðun hans á myndskeiðinu sé óafsakanleg.

„Þið hafið heyrt mig segja það árum saman, það er engin afsökun fyrir því að slá konur, og nú er ég kominn hingað að ræða það,“

„Ég skammast mín. Það var klárlega mikið áfengi sem hafði áhrif, en það er engin afsökun. Ég get á engan hátt afsakað þetta,“ segir Dana White.

Anne White tekur í sama streng. Hún segir atvikið vandræðalegt og slíkt hafi aldrei komið yfir áður.

„Þetta er út úr karakter fyrir hann og hefur aldrei gerst áður. Því miður neyttum við bæði óhóflegs magns áfengis þetta kvöld og misstum stjórn,“ segir Anne.

Ekki liggur fyrir hvort frekari eftirmálar verði af atvikinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×