Sex alvarleg atvik á bráðamóttöku voru tilkynnt til landlæknis árið 2022. Karlmaður sem sendur var heim af bráðamóttöku lést á milli jóla og nýárs og er atvikið nú til skoðunar. Bráðalæknir sem lét af störfum þar á dögunum segir stríðsástand ríkja.
Guðmundur segir fregnir af manninum sem lést hafa fengið hann til þess að senda út neyðarkall vegna ástandsins.
„Það þarf mikið til þess að gera mig reiðan en þetta gerði mig reiðan, svolítið persónulegt, en ég vill fá neyðarfund hjá velferðarnefnd. Fyrsti fundur velferðarnefndar eftir jólafrí verður um þetta mál. Við verðum að gera eitthvað hérna,“ segir Guðmundur en staðan sé orðin verri á bráðamóttökunni en hún var fyrir þrjátíu árum síðan.
Hann segir bráðamóttökuna vera yfirfulla á meðan undirmönnun ríki sem sé skaðleg fyrir starfsfólk spítalans. Fólk einfaldlega brenni upp andlega og líkamlega.
„Þetta verðum við að bæta. Við verðum að hætta að tala um nefndir og fara að gera eitthvað í málunum.“
Neyðarfundur í velferðarnefnd, hverju getur hann skilað í þessu?
„Ja, hann getur þá alla vega fengið upplýsingar um hvað er í gangi hérna. Það er alltaf verið að tala um að það sé undirmannað. Hjúkrunarfræðingar eru búnir að segja hérna upp, læknar eru búnir að segja hérna upp. Við erum með þúsund hjúkrunarfræðinga sem eru að vinna við eitthvað annað,“ segir Guðmundur.
Nauðsynlegt sé að byggð sé upp mannsæmandi vinnuaðstaða fyrir starfsfólk, bæta launin og fá það til baka á spítalann.
„Við verðum að hætta að tala um að það skorti fjármuni, fólkið fyrst svo allt hitt,“ segir Guðmundur að lokum.
Viðtalið við Guðmund má sjá hér að ofan í heild sinni og hefst það á 02:05.