Sport

Allt bendir til þess að leikur Bills og Bengals verði aldrei kláraður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Buffalo Bills. þeir Siran Neal (33) og Nyheim Hines hughreysta hvorn annan á meðan verið er að lífga við liðsfélaga þeirra Damar Hamlin í leiknum á móti Cincinnati Bengals.
Leikmenn Buffalo Bills. þeir Siran Neal (33) og Nyheim Hines hughreysta hvorn annan á meðan verið er að lífga við liðsfélaga þeirra Damar Hamlin í leiknum á móti Cincinnati Bengals. AP/Jeff Dean

NFL-deildin stöðvaði leik Cincinnati Bengals og Buffalo Bills á mánudagskvöldið eftir að leikmaður Bills hné niður á vellinum.

Hinn 24 ára gamli Damar Hamlin fór í hjartastopp og var lífgaður við á vellinum. Hann var síðan fluttur á sjúkrahús og er enn á gjörgæslu þótt að staðan á honum sé betri en hún var.

Leiknum, sem var þarna í fyrsta leikhluta, var ekki haldið áfram og svo aflýst. Seinna var gefin út tilkynning um að leikurinn færi ekki fram í þessari viku.

Nú bendir allt til þess að leikur Bills og Bengals verði aldrei kláraður.

Þetta var næstsíðasta umferð deildarinnar og mörg lið í deildinni eru í baráttu um stöðu og sæti í úrslitakeppninni.

Liðin spila bæði í Ameríkudeildinni og líklegast lausnin er að sigurhlutfall verði notað til að skera út um röð liðanna í deildinni.

Lið Buffalo Bills (12 sigrar og 3 töp) og Cincinnati Bengals (11 sigrar og 4 töp) hafa bæði tryggt sér sæti í úrslitakeppninni en innbyrðis leikur liðanna skipti máli upp á það hvaða lið fær að sitja hjá í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Bills var með einn sigurleik í forskot á Bengals fyrir leikinn en Bengals hefði komist upp fyrir Buffalo á innbyrðis leikjum með sigri.

Það er ekki mikill tími til stefnu og allt fastmótað og löngu skipulagt þegar kemur að dagsetnngum úrslitakeppninnar sem hefst strax viku eftir að deildarkeppninni lýkur.

Fátt er því í stöðunni annað en að leikur Bills og Bengals verði aldrei kláraður.

NFL

Tengdar fréttir

Hamlin sýnir framfarir en er ennþá á gjörgæsludeild

Buffalo Bills segja á Twitter-síðu sinni að Damar Hamlin hafi sýnt framfarir eftir að hafa farið í hjartastopp í leik liðsins aðfaranótt þriðjudags. Hann liggur enn þungt haldinn á gjörgæsludeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×