Handbolti

Þyngdi sig um sex­tán kíló á þremur mánuðum og fær að spila á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tobias Schjölberg Gröndahl í leik með Elverum á móti Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni í handbolta.
Tobias Schjölberg Gröndahl í leik með Elverum á móti Paris Saint-Germain í Meistaradeildinni í handbolta. Getty/John Berry

Tobias Schjölberg Gröndahl er einn mest spennandi handboltamaður Norðmanna og er nú á leiðinni á sitt fyrsta stórmót.

Gröndahl, sem er liðsfélagi Orra Freys Þorkelssonar hjá Elverum, er 21 árs gamall og spilar sem leikstjórnandi.

Hann spilaði sinn fyrsta landsleik í janúar árið 2021. Hann var ekki í HM-hópnum 2ö21, Ólympíuhópnum 2021 eða EM-hópnum 2022. Nú komst hann aftur á móti í liðið og hann sjálfur segir lykilinn að því hafi verið að hann náði að þyngja sig í sumar.

Gröndahl þótti of léttur og næringarfræðingur félagsins hjálpaði honum að búa til plan. Þremur mánuðum seinna hefur hann þyngt sig um sextán kíló.

„Ég fékk smá hjálp til að finna út hvernig ég færi að þessu og þetta var ekki mjög auðvelt. Milli allra fjögurra máltíða dagsins þá borðaði ég tvær brauðsneiðar,“ sagði Tobias Gröndahl við norska ríkisútvarpið.

Gröndahl fylgdi áætlun næringarfræðingsins og segist hafa verið orkumeiri. Hann æfði líka mjög vel og var fljótur að finna mun.

„Ég fann strax mun síðasta sumar. Allt í einu hafði ég meiri líkamsburði til að vinna með og þar sem að ég hafði alltaf verið léttur miðað við mótherjana þá hafði ég mjög gaman af því að upplifa þennan mun,“ sagði Gröndahl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×