Sport

Fær baráttukveðjur frá krökkum úr fjörutíu skólum í Cincinnati

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óhugnanlegt hjartastopp Damar Hamlin hefur haft áhrif á marga og þar á meðal unga krakka. Hér er ungur stuðningsmaður Buffalo Bills með skilti.
Óhugnanlegt hjartastopp Damar Hamlin hefur haft áhrif á marga og þar á meðal unga krakka. Hér er ungur stuðningsmaður Buffalo Bills með skilti. Getty/Timothy T Ludwig

Buffalo Bills leikmaðurinn Damar Hamlin er kominn til meðvitundar og braggast vel eftir að hafa lent í hjartastoppi í miðjum NFL-leik á mánudagskvöldið.

Hamlin var lífgaður við á vellinum og var svo haldið sofandi á sjúkrahúsi. Hann er hins vegar vaknaður og læknar eru ánægðir með bata hans til þessa. Leikmaðurinn á þó langt í land ennþá.

Hamlin er í önundarvél og getur ekki talað en hann hefur samskipti með því að skrifa skilaboð á blað.

Leikurinn umræddi fór fram í Cincinnati borg þar sem Bills liðið var að spila mjög mikilvægan leik við heimamenn í Bengals.

NFL-deildin öll, leikmenn og lið, hafa sýnt mikinn samtakamátt eftir þetta óhugnanlega atvik og Hamlin hefur fengið batakveðjur alls staðar af.

Margir hafa líka lagt inn pening til góðgerðasamtaka hans sem hafa safnað 7,4 milljónum dollara en markmiðið var að safna 2500 dollurum. 7,4 milljónir dollarar eru meira en milljarður í íslenskum krónum.

Sarah, eiginkona Zac Taylor sem þjálfar lið Cincinnati Bengals, hafði frumkvæði af því að láta krakka í skólanum sínum skrifa baráttukveðjur til Damar Hamlin. Nú hafa krakkar úr fjörutíu skólum skrifað kveðju til leikmannsins.

Hamlin mun fá bréfin með kveðjunum afhent í dag.

NFL

Tengdar fréttir

Hamlin vaknaður og spurði strax hvort liðið hefði unnið

Damar Hamlin, varnarmaður Buffalo Bills í NFL-deildinni í amerískum fótbolta, er vaknaður eftir að hafa farið í hjartastopp í leik liðsins gegn Cincinnati Bengals á aðfaranótt þriðjudags. Hann getur tjáð sig með skrifum og spurði strax hvort sínir menn hefðu klárað leikinn með sigri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×