Fótbolti

Napoli jók forskot sitt á toppnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Victor Osimhen skoraði fyrra mark Napoli í kvöld.
Victor Osimhen skoraði fyrra mark Napoli í kvöld. Cesare Purini/Mondadori Portfolio via Getty Images

Napoli er nú með sjö stiga forskot á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta eftir að liðið vann öruggan 2-0 útisigur gegn Sampdoria í kvöld.

Matteo Politano fékk tækifæri til að koma gestunum í Napoli í forystu strax á sjöttu mínútu er liðið fékk dæmda vítaspyrnu. Politano misnotaði þó spyrnu sína og staðan því enn markalaus.

Það breyttist þó á 19. mínútu þegar Victor Osimhen kom gestunum yfir með marki eftir stoðsendingu frá Mario Rui. Ekki batnaði útlitið fyrir heimamenn þegar Tomas Rincon var rekinn af velli með beint rautt spjald stuttu fyrir hálfleikshléið og Sampdoria þurfti því að leika allan seinni hálfleikinn manni færri.

Gestirnir nýttu sér liðsmuninn þegar Eljif Elmas gerði út um leikinn með marki úr vítaspyrnu á 82. mínútu og niðurstaðan 2-0 útisigur Napoli.

Napoli trónir sem fyrr segir á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar, en liðið er með 44 stig eftir sigur kvöldsins, sjö stigum meira en Juventus sem situr í öðru sæti.

Sampdoria situr hins vegar í 18. sæti með níu stig, sex stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×