Naomi Osaka hefur verið ein stærsta stjarnan í tennisheiminum síðustu ár en hún hefur glímt við bæði þunglyndi og kvíða í fjölda ára og ekki keppt síðan í september. Osaka hefur unnið Opna ástralska mótið í tvígang en hún komst fyrst í efsta sæti heimslistans árið 2019 en situr nú í 47.sæti listans. Þá var hún launahæsta íþróttakona í heimi árið 2020.
Þegar forsvarsmenn Opna ástralska mótsins greindu frá því að Osaka hefði dregið sig úr keppni á mótinu voru margir sem töldu að áðurnefnd andleg veikindi væru ástæðan fyrir fjarveru Osaka en nú hefur annað komið á daginn.
Osaka greinir nefnilega frá því á Instagram að hún eigi von á barni.
„Mánuðirnir sem ég hef verið fjarverandi hafa fært mér ástina fyrir leiknum á ný, leiknum sem ég hef helgað líf mitt. Ég geri mér grein fyrir að lífið er stutt og ég tek engum augnablikum sem gefnum, hver dagur er blessun og ævintýri,“ segir Osaka í yfirlýsingu á Instagram en einhverjir höfðu velt því fyrir sér hvort hún myndi nokkurn tíman snúa aftur á tennisvöllinn.
„Ég veit að ég hef margt að hlakka til í framtíðinni, meðal annars þess að barnið mitt sjái einn af leikjunum mínum og segi „Þetta er mamma mín“, segir Osaka í tilkynningunni.
„Ég vona að ég sjái ykkur í byrjun næsta árs því ég verð í Ástralíu 2024.“