Kristín Ólafsdóttir fréttamaður leit við í Eymundsson í Austurstræti og ræddi við Hörpu Hrund Berndsen, áhugakonu um bresku konungsfjölskylduna, svokallaðan royalista, í kvöldfréttum Stöðvar 2:
Harpa Hrund varð sér út um rafrænt eintak á útgáfudegi en var mætt til að fá bókina á pappírsformi. Hún segir koma á óvart hve persónuleg bókin sé.
„Þarna eru mörg einkasamtöl sem hann hefur átt við fjölskyldumeðlimi. Ég bjóst kannski við alveg svona gríðarlega persónulegum atvikum.“
Hún segir Breta hafa almennt tekið illa í bókina. „Þeim finnst þetta heldur mikil svik af hans hálfu. Ég veit ekki hvernig viðbrögðin eru í Ameríku, það verður spennandi að sjá hvernig verður í framhaldinu þegar birt verða viðtöl við hann.“
Í umsögn breska ríkisútvarpsins segir að bókin sé sú skrýtnasta sem nokkurn tímann hefur verið skrifuð af meðlimi konungsfjölskyldunnar. Bókin virki eins og reiðilestur drukkins manns.
Er hann búinn að brenna allar brýr að baki sér?
„Eins mikið og hann hefur verið minn maður, þá held ég því miður að hann sé búinn að því, allavega hvað varðar fjölskyldu og líkur á að ná sáttum,“ segir Harpa að lokum.
Svanborg Þórdís Sigurðardóttir, vörustjóri erlendra bóka hjá Eymundsson segir gríðarlegan áhuga á kóngafólkinu og sögu Harry og eiginkonu hans vera á Íslandi sem og víða um heim. Erfitt sé að miða eftirvæntinguna fyrir bókinni við eitthvað annað.