Viðskipti innlent

Verk­fræðingar sömdu án launa­þaks og banka­menn vilja það sama

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Bankamenn vilja fá svipaðan samning og verkfræðingar gerðu dögunum. 
Bankamenn vilja fá svipaðan samning og verkfræðingar gerðu dögunum.  Vísir/Vilhelm

Ekkert launaþak var sett í kjarasamningi sem Verkfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag byggingarfræðinga og Stéttarfélag tölvunarfræðinga gerði í desember við FRV félag Félag ráðgjafarverkræðinga.

Morgunblaðið fjallar um þetta í morgun og bendir á að í öllum stóru samningunum sem SA hefur gert að undanförnu við Starfsgreinasambandið, VR og samflot iðn- og tæknifólks hefur ávallt verið ákvæði um launaþak, þannig að launahækkun getur aldrei orðið meiri en 66 þúsund krónur á mánuði.

Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja standa nú í kjaradeilu við Samtök atvinnulífsins og höfnuðu nýjasta tilboði SA í gær, meðal annars á þeim forsendum að í því tilboði er launaþak.

Ari Skúlason formaður SSF segir í samtali við Morgunblaðið að það sé krafa starfsmanna í fjármálafyrirtækjum að semja á líkum nótum og verkfræðingarnir gerðu á dögunum.

Uppfært klukkan 13:30

Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA segir fréttaflutning af samningi FRV við verkfræðinga, byggingarfræðinga og tölvunarfræðinga vera villandi í meginatriðum. Hann áréttar því að Samtök atvinnulífsins fari ekki með samningsumboð fyrir FRV og hafi því ekki með nokkrum hætti komið að gerð samingsins. Það sé því af og frá að reglan um hámarkshækkun á laun hafi verið brotin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×