Handbolti

Ó­trú­legt sjálfs­mark leik­manns Svart­fellinga á heims­meistara­mótinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Vuk Lazovic sést hér í baráttunni í fyrsta leik Svartfellinga gegn Spáni. Hann skoraði ótrúlegt sjálfsmark í leiknum gegn Íran í gær.
Vuk Lazovic sést hér í baráttunni í fyrsta leik Svartfellinga gegn Spáni. Hann skoraði ótrúlegt sjálfsmark í leiknum gegn Íran í gær. Vísir/Getty

Svartfjallaland vann þriggja marka sigur á Íran á heimsmeistaramótinu í handknattleik í gær. Eitt marka Íran í leiknum var óvenjulegra en flest handboltamörk.

Svartfjallaland og Íran mættust í gær í A-riðli á heimsmeistaramótinu í handknattleik í gær en sá riðill er spilaður í Krakow í Póllandi. Svartfjallaland vann þar þriggja marka sigur, 34-31, eftir að hafa beðið lægri hlut gegn Spáni í fyrstu umferðinni.

Vuk Lazovic lék í vörn Svartfellinga í leiknum en tókst ekki að koma sér á blað sem markaskorari, allavega ekki fyrir Svartfjallaland. Lazovic tókst hins vegar að skora mark fyrir Íran í leiknum því hann gerði sjálfsmark þegar hann reyndi að koma í veg fyrir að línumaður Íran næði boltanum. 

Á sama tíma og hann slæmdi hendi í knöttinn rauk markvörður Svartfellinga úr markinu til að handsama boltann. Lazovic var þó á undan en tókst á einhvern ótrúlegan hátt að blaka boltanum í eigið net.

Þetta kom þó ekki að sök því eins og áður segir þá unnu Svartfellingar þriggja marka sigur í leiknum. Þeir mæta Chile í lokaleik sínum í riðlinum á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×