Sport

Sænskur ís­hokkí­mar­k­vörður skuldar sjö milljarða króna og lýsir sig gjald­þrota

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Robin Lehner sést hér í marki Vegas Golden Knights en hann hefur ekki farið vel með peningana sína.
Robin Lehner sést hér í marki Vegas Golden Knights en hann hefur ekki farið vel með peningana sína. Getty/Jeff Vinnick

Markvörður NHL-íshokkíliðins Vegas Golden Knights hefur lýst sig gjaldþrota þrátt fyrir að vera á mjög góðum launum sem leikmaður í bestu íshokkídeild heims.

Svíinn Robin Lehner og kona hans hafa óskað eftir gjaldþrotaskiptum og segjast skulda fjölmörgum aðilum samtals um fimmtíu milljónir Bandaríkjadala eða meira en sjö milljarða íslenskra króna.

Þau hjónin sóttu um gjaldþrotaskipti 30. desember síðastliðinn eftir að fyrirtæki í Wisconsin fylki lögsótti Lehner vegna fjögurra milljón dollara skuldar. Fyrirtækið heldur því fram að Lehner og faðir hans hafi ekki greitt afborganir af viðskiptaláni á síðasta ári.

Meðal þess sem Lehner hefur ekki borgað fyrir eru sjaldgæfir snákar sem hann keypti fyrir 1,2 milljónir dollara árið 2017 en þetta kemur fram í umsókn vegna gjaldþrotaskipta. Lehner er með snákana á skriðdýra búgarði í Plato í Missouri fylki.

Robin Lehner og Donya kona hans segjast eiga eignir upp á tíu milljónir dollara.

Hinn 31 árs gamli markvörður skrifaði undir fimm ára samning við Knights árið 2020 og átti að fá fyrir hann 25 milljónir dollara. Hann hefur ekkert spilað á 2022-23 tímabilinu eftir að hafa farið í aðgerð á mjöðm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×