Leikstjórnandinn Ian Tarrafeta, sem er liðsfélagi Kristjáns Arnar Kristjánssonar hjá Pays d’Aix UC, meiddist á HM og því þurfti að kalla út annan leikmann í staðinn. Tarrafeta rifbeinsbrotnaði í leik á móti Svartfjallalandi.
Spænski landsliðsþjálfarinn ákvað að kalla út Pol Valera í staðinn en Valera lék sinn fyrsta landsleik í nóvember 2021 en hafði aldrei tekið þátt í stórmóti.
Hinn 24 ára gamli Valera spilar með liði BM Granollers og hefur gert það undanfarin sex tímabil.
Valera var vissulega í 35 manna hópi Spánverja en átti samt ekki von á því að heyra í landsliðsþjálfaranum á miðju móti. Hann hafði nýtt HM-fríið til að skella sér með konunni til Lundúna.
„Þjálfarinn hringdi í mig á sunnudaginn þegar ég var staddur í London með kærustunni. Ég var auðvitað mjög ánægður og fann fyrsta flugið hingað sem var í boði,“ sagði Pol Valera í samtali við TV 2 SPORT eftir sigur Spánverja á Írönum.
Það var aftur á móti smá vandamál þegar kom að búnaðinum til að spila handbolta. Það var enginn ástæða til að taka slíka hluti með til London.
„Handboltaskórnir og allt íþróttadótið mitt var á Spáni en pabbi minn sendi það strax til Kraká og ég vil þakka honum fyrir það. Allt er í góðu núna,“ sagði Valera.
„Ég er virkilega ánægður með að vera hérna og fá að taka þátt í þessu móti sem er það stærsta í heimi. Það hefur verið ánægjulegt að spila með þessum strákum og þetta er eins og draumur fyrir mig. Ég á eiginlega engin orð til að lýsa þessu,“ sagði Valera.
„Allir bestu leikmenn Spánar eru hér. Þetta er mér mjög mikilvægt og ég ætla að gefa allt mitt í þetta. Draumur minn er fyrst og fremst að vinna þetta mót og svo kannski spænsku deildina og Meistaradeildina einn daginn,“ sagði Valera.
Hann hefur verið sterklega orðaður við Barcelona og er því líklegur til að taka fleiri stór skref á sínum ferli á næstunni.