Umfjöllun: Brasilía - Ungverjaland 25-28 | Enginn brasilískur greiði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
325758027_1358606381554484_4082321243066782815_n

Ungverjaland kom sér í frábæra stöðu til að komast í átta liða úrslit á HM 2023 í handbolta karla með sigri á Brasilíu, 25-28.

Þessi úrslit þýða að Ísland verður að vinna Svíþjóð á eftir til að eiga möguleika á að komast í átta liða úrslit. Ef Brasilía hefði tekið stig af Ungverjalandi í dag hefði það minnkað pressuna á íslenska liðinu fyrir leikinn gegn Svíþjóð í kvöld en allt kom fyrir ekki.

Báðir hálfleikirnir spiluðust svipað. Ungverjar byrjuðu þá af miklum krafti en Brassar komu til baka. Þeir jöfnuðu í fyrri hálfleik, og staðan að honum loknum var 14-14. Ungverjar náðu aftur frumkvæðinu en Brassar unnu sig inn í leikinn og fengu þrjú tækifæri til að jafna í 24-24 en þá hrökk sókn þeirra í baklás og Roland Mikler reyndist þeim einnig erfiður.

Mikler varði sextán skot, eða 39 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Máté Lékai skoraði síðustu þrjú mörk Ungverjalands og sjö alls. Gábor Anscin skoraði sex.

Hugo Bryan Monta da Silva skoraði sex mörk fyrir Brasilíu sem mætir Íslandi í lokaleik sínum í milliriðli á sunnudaginn. Ungverjaland mætir aftur á móti Grænhöfðaeyjum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira