Íslenski boltinn

Dagur á leið í sólina í Orlando

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagur Dan Þórhallsson var einn besti leikmaður Bestu deildarinnar á síðasta tímabili.
Dagur Dan Þórhallsson var einn besti leikmaður Bestu deildarinnar á síðasta tímabili. vísir/hulda margrét

Dagur Dan Þórhallsson er á leið til Orlando City sem leikur í MLS-deildinni í Bandaríkjunum frá Íslandsmeisturum Breiðabliks.

Greint var frá þessu í hlaðvarpinu Dr. Football og mbl.is fékk það svo staðfest að samningaviðræður milli Orlando og Breiðabliks væru á lokastigi.

Dagur kom til Breiðabliks frá Fylki fyrir síðasta tímabil. Hann lék stórvel með Blikum í fyrra, í hinum ýmsu stöðum, og átti stóran þátt í að þeir urðu Íslandsmeistarar í fyrsta sinn í tólf ár. Dagur lék 25 leiki í Bestu deildinni og skoraði í þeim níu mörk. Dagur hefur leikið fjóra landsleiki, alla í vetur.

Orlando endaði í 7. sæti Austurdeildar MLS á síðasta tímabili og tapaði fyrir Montréal í 1. umferð úrslitakeppninnar. Dagur verður fyrsti Íslendingurinn sem leikur með Orlando sem er níu ára gamalt félag. Þekktustu leikmenn sem hafa spilað fyrir það eru Brasilíumaðurinn Kaká og Portúgalinn Nani.

Auk Breiðabliks og Fylkis hefur hinn 22 ára Dagur leikið með Keflavík, Haukum og Mjöndalen í Noregi á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×