Egyptar spila aftur á móti um 7. sæti við tapliðið úr leik Noregs og Ungverjalands, á sunnudaginn í aðdraganda leikjanna um brons- og gullverðlaun mótsins.
Þýskaland þurfti að hafa meira fyrir sigrinum en útlit var fyrir lengi vel, því liðið var 28-21 yfir um miðjan seinni hálfleik. Þá byrjuðu Egyptar hins vegar að éta upp forskotið býsna hratt og jafna metin í 30-30 þegar enn voru þrjár mínútur eftir.
Hvorugt liðið skoraði á þeim tíma en Ali Mohamed, sem ásamt Yehia Elderaa var markahæstur hjá Egyptum með sjö mörk í dag, átti skot í þverslá á síðustu stundu. Því varð að framlengja.
Eftir fyrri fimm mínúturnar var enn jafnt, 33-33, og Þjóðverjum tókst svo loks að kreista fram eins marks sigur.
Juri Knorr var markahæstur Þýskalands með sjö mörk en þeir Johannes Golla og Julian Köster nýttu öll skot sín og skoruðu sex mörk hvor.
Noregur og Ungverjaland mætast klukkan 17 í dag og eftir þann leik verður ljóst hvaða liði Þýskaland mætir í Stokkhólmi á sunnudaginn, og hvaða liði Egyptaland mætir á sama stað.