Íslenski boltinn

Leik­maður Fjölnis virðist vilja burt og er kominn í verk­fall

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lúkas Logi var lánaður til Ítalíu um tíma en sneri svo aftur í Grafarvoginn.
Lúkas Logi var lánaður til Ítalíu um tíma en sneri svo aftur í Grafarvoginn. Empoli

Lúkas Logi Heimisson, leikmaður Fjölnis í Lengjudeild karla í fótbolta, er farinn í verkfall. Hann hefur verið orðaður við lið í Bestu deildinni, þar á meðal Val, og virðist ekki ætla að spila í Grafarvogi í sumar.

Frá þessu var greint í hlaðvarpinu Þungavigtin. Þar kom fram að hinn 19 ára gamli Lúkas Logi væri verulega ósáttur með að Fjölnir hefði ekki tekið eitthvað af þeim tilboðum sem hefðu borist. Einnig kom fram að leikmaðurinn hefði ekki spilað með Fjölni í Reykjavíkurmótinu og ekki mætt á æfingar.

Samningur Lúkasar Loga við Fjölni rennur út næsta haust og má hann byrja að ræða við lið í apríl næstkomandi. Hann virðist þó ekki ætla að bíða svo lengi. Fótbolti.net ræddi við Geir Kristinsson, formann knattspyrnudeildar Fjölnis, og staðfesti hann að leikmaðurinn væri farinn í verkfall.

„Hann hefur ekki mætt á nokkrar æfingar. Það er áhugi frá mörgum félögum í efstu deild en þau tilboð sem hafa borist hafa ekki verið nægilega góð,“ sagði Geir og tók fram að Fjölnir stæði ekki í vegi fyrir leikmönnum sem geta farið erlendis. Lúkas Logi fór á láni til Ítalíu haustið 2021 og kom heim vorið 2022.

„Við reyndum að hjálpa honum að fara til Empoli í fyrra en það gekk ekki upp.“

Geir sagði einnig að Fjölnir myndi hlusta ef góð tilboð kæmu inn á borð Fjölnis. Þá skaut hann á umboðsmenn: „Félögunum er enginn greiði gerður hvernig umboðsmenn virðast stundum stýra umræðunni í þessu.“

Viðtalið við Geir má lesa í heild sinni hér. Þá má finna öll hlaðvörp Þungavigtarinnar inn á tal.is/vigtin og þar er líka hægt að tryggja sér áskrift.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×