Handbolti

Hetja Dana var búinn að panta lestar­miða heim á miðju móti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rasmus Lauge Schmidt fagnar með liðsfélögum sínum í danska landsliðinu.
Rasmus Lauge Schmidt fagnar með liðsfélögum sínum í danska landsliðinu. AP/Jessica Gow

Rasmus Lauge átti stórkostlegan leik þegar Danir tryggðu sér heimsmeistaratitilinn í handbolta í gær en þessi frammistaða hans komu heldur betur úr óvæntri átt.

Lauge skoraði tíu mörk úr ellefu skotum í leiknum og kom til bjargar eftir að Mikkel Hansen fann sig ekki á móti frönsku vörninni.

Lauge fékk mikið hrós frá liðsfélögunum sínum eftir leik en hann varð þarna aðeins sjötti leikmaður sögunnar sem nær að skora tíu mörk í úrslitaleik heimsmeistaramótsins.

Það merkilegasta við frammistöðu Lauge var að hann hafði aðeins spilað 23 mínútur í mótinu fyrir úrslitaleikinn og ekki skorað eitt einasta mark á öllu heimsmeistaramótinu.

Öll þrjú skotin hans höfðu misfarist fyrir leikinn og hann hafði aðallega spilað í vörninni þegar hann kom við sögu.

Rasmus Lauge meiddist nefnilega fyrir mótið og það leit út fyrir að hann myndi missa af öllu heimsmeistaramótinu.

Hann var búinn að bóka lestarmiða heim en síðasta prófið sem hann fór í kom nægilega vel út þannig að hann gerði það ekki.

„Ég hef aldrei séð annað eins. Þetta er mjög aðdáunarvert,“ sagði Mikkel Hansen um frammistöðu Rasmus Lauge eftir úrslitaleikinn

„Þetta er eitt það fallegasta sem ég hef séð. Það var ekki meira en vika síðan að hann reifst við Nikolaj (Jacobsen, þjálfara), um hvort hann yrði sendur heim. Ég stóð þá, horfði á hann og dáðist að honum. Hann var svo stoltur. Það er málið. Hann veit um hvað þetta snýst. Hann er einn sá besti í heimi en hefur bara verið óheppinn,“ sagði Mathias Gidsel, sem var sjálfur kosinn mikilvægasti leikmaður mótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×