Handbolti

Forsetinn gat ekki lyft bikarnum

Sindri Sverrisson skrifar
Hassan Moustafa hefur verið forseti IHF frá árinu 2000.
Hassan Moustafa hefur verið forseti IHF frá árinu 2000. Getty/Jan Woitas

Niklas Landin, markvörður og fyrirliði Danmerkur í handbolta, var fljótur að hugsa þegar hann sá að Hassan Moustafa, forseti alþjóða handboltasambandsins, ætti ekki möguleika á að lofta heimsmeistarabikarnum til að rétta Landin hann.

Moustafa hefur verið forseti alþjóða handboltasambandsins í yfir tvo áratugi og vægast sagt verið umdeildur í embætti.

Hann er orðinn 78 ára gamall og aldurinn virðist farinn að segja til sín bæði andlega og líkamlega. Þrátt fyrir tilraunir til þess gat hann að minnsta kosti ekki lyft upp tuttugu kílóa gullstyttunni sem Danir fengu eftir sigurinn gegn Frökkum í úrslitaleik HM í Stokkhólmi á sunnudaginn.

Moustafa tók í styttuna en þegar ljóst varð að hann gæti ekki lyft henni fékk hann fljótt aðstoð og Landin, heimsmeistari þriðja skiptið í röð, labbaði strax til Moustafa til að taka við gripnum. Atvikið má sjá hér.

„Hann er orðinn of gamall til að halda á henni sjálfur. Hún er reyndar ansi þung,“ sagði Mads Mensah Larsen, leikmaður danska liðsins, en leikmönnunum virtist skemmt yfir atvikinu.

„Hún er níðþung! En ég er nú vanur, við erum alltaf að vinna hana, haha. En maður sér þegar þeir reynsluminni taka við henni í fyrsta sinn að þeir eru nálægt því að missa hana,“ sagði Landin um verðlaunastyttuna.

Moustafa gerði einnig mistök í ræðu sinni eftir úrslitaleikinn þegar hann þakkaði Danmörku og sjálfboðaliðum þar fyrir vel skipulagt mót, og virtist þannig halda að Danir hefðu haldið mótið með Svíum og Pólverjum.

Fyrr um daginn hafði forsetinn sleppt því að mæta á eigin blaðamannafund, sem hefð er fyrir að haldinn sé á lokadegi HM, og samkvæmt Aftonbladet fengust engar skýringar á því, ekki einu sinni frá varaforseta handknattleikssambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×