Íslenski boltinn

„Ef ég hefði þann eigin­leika líka væri ég mögu­lega að spila á hærra getu­stigi“

Það voru engin smá fótspor sem Júlíus Magnússon þurfti að feta í þegar hann tók við fyrirliðabandi þáverandi Íslands- og bikarmeistara Víkings. Að taka við af Kára Árnasyni og Sölva Geir Ottesen er svo sannarlega ekki allra en með Júlíus sem fyrirliða þá varð liðið bikarmeistari enn á ný, fór langt í Evrópu en hélt því miður ekki dampi í Bestu deildinni.

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vísir/Vilhelm

Það voru engin smá fótspor sem Júlíus Magnússon þurfti að feta í þegar hann tók við fyrirliðabandi þáverandi Íslands- og bikarmeistara Víkings. Að taka við af Kára Árnasyni og Sölva Geir Ottesen er svo sannarlega ekki allra en með Júlíus sem fyrirliða þá varð liðið bikarmeistari enn á ný, fór langt í Evrópu en hélt því miður ekki dampi í Bestu deildinni.

Leikurinn minn í mínum orðum er viðtalssería þar sem farið verður yfir hvað fer í gegnum höfuðið á íþróttafólki þegar það spilar leikinn sem það elskar. Hvernig sér það leikinn og af hverju sér það leikinn á þann hátt? Þessum spurningum reynir Júlíus Magnússon, fyrirliði bikarmeistara Víkings, að svara hér að neðan.

Júlíus Magnússon [24 ára miðjumaður, Víkingur | 5 A-landsleikir]

Júlíus Magnússon fór ungur að árum til Heerenveen í Hollandi en sneri aftur í Víkina árið 2019 og hefur verið einn albesti miðjumaður deildarinnar síðan. Júlíus var gerður að fyrirliða Víkings eftir að Kári Árnason og Sölvi Geir lögðu skóna á hilluna að loknu ævintýralegu sumri 2021 þar sem liðið vann bæði deild og bikar. Þó Víkingar hafi ekki náð ekki markmiðum sínum í deildinni þá varð liðið bikarmeistari sem þýðir að Júlíus hefur nú orðið bikarmeistari þrisvar sinnum, þar af einu sinni sem fyrirliði. Júlíus er líklega einn sérhæfðasti miðjumaður Bestu deildarinnar enda snemma ljóst hvar honum leið best á vellinum.

Bikarmeistaratitlinum 2022 fagnað.Vísir/Hulda Margrét

„Held ég hafi verið frekar varnarsinnaður í upphafi. Í minnibolta var ég aðallega í vörn en færði mig svo upp á miðjuna þegar við komum á stærri völl, í 5. flokki. Hef svo verið þar allar götur síðar. Var ekkert endilega alltaf djúpur á miðjunni en síðasta áratuginn eða svo hefur verið neglt í stein að sexa [djúpur miðjumaður] væri staðan mín.“

„Held að ég hafi bara neitað öðrum stöðum þegar það kom upp, var kannski svolítið þrjóskur. Ef Arnar Gunnlaugsson [þjálfari Víkings] myndi hins vegar ákveða stilla mér upp annars staðar í dag myndi ég taka því. Að því sögðu þá veit ég núna hvar ég spila best og svo er þetta komið á það stig að ég er ekki búinn að prófa mig annarsstaðar. Held að ég sé búinn að negla þessa stöðu.“

Júlíus og Arnar á blaðamannafundi saman.Vísir/IÞS

„Þegar ég var yngri var ég mögulega framar en aðrir leikmenn þegar kom að leikskilningi og að geta séð hluti aðeins fyrr. Þurfti ef til vill á því að halda að vera sneggri að hugsa og að vera með næstu sendingu klára því ég hef alltaf verið aðeins hægari á löppunum en aðrir leikmenn. Maður hefur þurft að vera einu skrefi á undan til að vera í takti.“

„Ég prófaði að fara á 1-2 æfingar í hinum og þessum íþróttum en það komst aldrei neitt annað að en fótbolti.“

Hvernig leikmaður er Júlíus Magnússon?

„Varnarsinnaður djúpur miðjumaður sem er góður í að stjórna spili og hraða leiksins. Tel mig eenn vera með mjög góðan leikskilning ásamt því að ég næ vel að tengja saman það sem er fyrir aftan og framan mig. Það hefur hins vegar verið veikleiki að ná ekki að troða inn nægilega mörgum mörkum.“

„Ef ég hefði þann eiginleika líka væri ég mögulega að spila á hærra getustigi. Ef til vill hefur það aftrað mér síðustu ár að hafa ekki skorað eða lagt nægilega mikið upp. Hefur verið minn helsti veikleiki, að geta ekki bundið endahnút á sóknir.“

„Náði einhvern veginn að troða þessu inn á síðasta tímabili, held ég hafi skorað fleiri mörk þá en síðustu þrjú tímabil til samans.“

„Ef maður er ekki hærri en 1.80 [metri] á hæð þá á er ekki sjálfgefið að maður fái alltaf að fara inn í hornum. Ég lét þjálfarateymið samt sem áður vita að það möguleiki. Held líka að þeir hafi séð það á æfingum þannig það fór að tikka inn og kom að gagni.“

„Væri ekki jafn góður leikmaður ef ég hefði ekki farið út“

Júlíus fór 16 ára gamall til Heerenveen í Hollandi og var þar í fjögur ár.

„Tel mig hafa þróað leikstílinn minn í góða átt á meðan ég var þar, þeir kenndu mér rosalega mikið. Ég held ég væri ekki jafn góður leikmaður og ef ég hefði ekki farið út. Allar þessar aukaæfingar, ekki bara sjálfur heldur hjá félaginu þar sem miðað er við hverja leikstöðu fyrir sig. Það eru ekki öll lið á Íslandi sem geta verið 16 ára leikmann sem fær eingöngu kennslu í hvernig á að spila sem sexa [djúpur miðjumaður],“ segir Júlíus.

„Heerenveen spilaði í raun eingöngu 4-3-3 en þegar maður var kominn í varaliðið var aðeins meiri fjölbreytni. Eru samt mest í hefðbundinni fjögurra manna vörn, einn djúpur miðjumaður þar fyrir framan og tveir sóknarsinnaðir fyrir framan hann, í raun með tvær tíur. Svo eru tveir vængmenn og einn framherji.“

„Fyrir mitt leyti og mína stöðu breytist ekki mikið milli kerfa“

Arnar Gunnlaugs er sannkallað kamelljón þegar kemur að leikkerfum og finnst gaman að breyta til. Það hefur þó ekki mikil áhrif á Júlíus.

„Fyrsta árið náði Arnar að „drilla“ okkur í flestum leikkerfunum sem hann vill spila. Við sem höfum verið með Arnari allan tímann og þeir sem hafa unnið með honum lengi eru komnir með sinn byrjunar-fasa í hverju einasta kerfi og svo vinnur maður út frá því. Fyrir mitt leyti og mína stöðu breytist ekki mikið milli kerfa nema að stundum er ég einn - með fleiri leikmenn fyrir framan mig - en stundum erum við tveir  með færri fyrir framan okkur, það er svona eina breytingin.“

Arnar er oftar en ekki líflegur á hliðarlínunni.EPA-EFE/Jakub Kaczmarczyk

„Finnst betra að vera með mann við hliðina á mér en að því sögðu þá er það oftast þannig að þegar við sækjum er ég yfirleitt einn [fyrir framan vörnina]. Þegar við verjumst finnst mér samt þægilegra að hafa mann við hliðina á mér.“

„Andstæðingurinn skiptir samt öllu máli í þessu. Ef við erum að fara með boltann allan leikinn og þurfum varla að verjast þá tökum við þann séns að ég sé einn og við reynum að vinna boltann hátt uppi á vellinum en svona heilt yfir myndi ég segja að það sé betra að vera með mann við hliðina á mér.“

Fyrirliðinn Júlíus 

Júlíus var oftar en ekki fyrirliði í yngri flokkum sem og yngri landsliðum. Eftir að Kári Árnason og Sölvi Geir lögðu báðir skóna á hilluna eftir sumarið 2021 leitaði Arnar til Júlíusar um að taka við fyrirliðabandinu.

„Held að ég sé með smá leiðtoga element í mér. Held líka að það hafi áhrif hvaða stöðu ég spila á vellinum. Myndi ekki tala svona mikið ef ég væri hægri kantmaður, myndi ekki sjá völlinn jafn vel og ég geri af miðjunni.“

Júlíus reynir að toga Pablo Punyed úr vandræðum.Vísir/Hulda Margrét

„Ef að sexur nú til dags eru eru áberandi í talanda og stjórnun inn á vellinum verða þær að mínu mati sjálfkrafa hugmynd að fyrirliða fyrir þjálfarann. Þetta féll svolítið upp í hendurnar á mér eftir að tveir fyrirliðar [Kári og Sölvi Geir] duttu út, það þurfti einhver annar að stíga inn. Mikill heiður fyrir mig að fá það hlutverk.“

„Um leið og þú ert með þessar raddir [Kára og Sölva Geir] fyrir aftan þig þá talar þú ekki alveg jafn mikið, þú þarft þess heldur ekki. Ef það þarf að hækka róminn eða eitthvað þá veit maður að þeir gera það. Ég held samt hvað mig varðar að þá hafi talandinn inn á vellinum alltaf verið jafn mikill, hann jókst ekkert eftir að Kári og Sölvi hættu.“

„Ég held ég hafi alltaf stjórnað jafn mikið og reynt að hjálpa samherjum mínum, það var enginn munur á því. Þegar það þurfti hins vegar að segja eitthvað eða reyna snúa einhverju við þá var maður ekki jafn duglegur að segja eitthvað því maður var með þessar raddir í Kára og Sölva.“

Kári Árnason lék á sínum tíma 90 A-landsleiki.Vísir/Hulda Margrét
„Ef þeir svara ekki þá verð ég að finna aðra leið“

Það kemur fyrir að Júlíus mæti leikmönnum sem hann þekkir lítið til eða veit lítið um. Hvað gerir hann til að ná þeim úr jafnvægi?

„Ég verð að viðurkenna, ég er ekki með neitt svona sem ég leita alltaf í. Í mesti lagi reyni ég að komast inn í hausinn á þeim með einhverjum talsmáta. Ég er ekki að tala um að ég sé að leggja þá í einelti, bara að reyna finna hvar ég hef þá,“ segir Júlíus.

„Ef þeir svara ekki þá verð ég að finna aðra leið, vera alltof nálægt þeim þótt boltinn sé hinum megin á vellinum. Léttleikandi leikmönnum finnst það oftar en ekki verulega pirrandi.“

Júlíus fékk alls 7 gul spjöld í Bestu deildinni á síðustu leiktíð.Vísir/Vilhelm
„Þægilegast að fá boltann frá bakverði“

„Ef við erum í uppspili og náum ekki að færa okkur framar á auðveldan hátt þá finnst mér þægilegast að fá boltann frá bakverði, snúa og gefa yfir á hinn kantinn. Það er eiginlega besta leiðin því þá nærðu að færa liðið frá hægri til vinstri, eða öfugt, og vonandi opna einhverjar glufur.“

„Það er mjög erfitt að fá boltann frá miðverði og snúa, allavega ef það er pressa. Besta leiðin er að fá hann frá bakverði og yfir eða frá bakverði og upp völlinn. Það kemur fyrir að ég nái að senda boltann í fyrsta inn fyrir á sama kanti og við sköpum stöðu fyrir snögga fyrirgjöf og við náum þannig að koma mótherjanum á óvart.“

„Virði alveg lið sem fara á sinn vítateig til að verjast“

„Mér getur alveg fundist það pirrandi þegar lið spila með þriggja manna vörn á móti okkur. Ég virði alveg lið sem fara á sinn vítateig til að verjast, það fer ekkert í taugarnar á mér nema kannski að staðan sé enn 0-0 á 80. mínútu og við höfum verið boltann 95 prósent af leiknum. Að sjálfsögðu fer það í taugarnar á mér en ég held það sé líka bara því að þá höfum við ekki náð að brjóta þá niður.“

„Myndi frekar segja að þegar lið spila með fimm manna vörn en ná að þrýsta sínum bakvörðum hátt upp á sama tíma og þau halda þremur mönnum á miðjunni. Þegar lið ná að loka á okkur þannig þá finnst mér það pirrandi.“Vísir/Hulda Margrét

Hvað hefur breyst hjá Júlíusi á undanförnum árum?

„Það er ekkert sem kemur upp í hausinn um leið. Maður er samt að leggja áherslur á annað en þegar maður kom fyrst í Víking,“ segir Júlíus.

„Arnar talar reglulega um - ef við erum mikið með boltann á vallarhelmingi mótherjans og erum að dæla fyrirgjöfum inn á teig - að leikmennirnir fyrir utan teiginn séu ekki aðeins þarna til að hirða upp lausu boltana heldur séu þeir einnig skotógn, séu þarna til að skora,“ bætir hann við.

„Það tikkar hratt ef maður hefur þann eiginleika – að vera ógn fyrir utan teig. Þetta er eitthvað sem ég hef reynt að bæta við minn leik þó é sé ekki að taka einhver 300 skot í viku. Snýst meira um að staðsetja sig rétt og taka þessi skot sem detta einhvern veginn fyrir mann. Ég held það hafi sýnt sig síðasta sumar, ég skoraði tvö mörk fyrir utan teig. Þetta telur allt og það vekur athygli þegar leikmaður skorar flott mörk.“


Tengdar fréttir

„Þetta var okkar leið og hún svín­virkaði“

Birkir Már Sævarsson var sóknarþenkjandi bakvörður áður en það komst í tísku. Hann reynir að taka hvern leik eins og hann kemur, sama hvort það sé gegn Leikni R. í Breiðholti eða Lionel Messi og félögum í Argentínu.

„Ef ég er ekki hamingju­söm þá er ég ekki að fara spila vel“

Dagný Brynjarsdóttir er án efa einn besti skallamaður sem Ísland hefur alið. Það gerðist hins vegar ekki af sjálfu sér. Það var ekki fyrr en hún var komin í háskóla í Bandaríkjunum sem þáverandi þjálfarinn hennar sagðist ætla að gera hana að einum besta skallamanni í heimi.






×