Fyrr í dag birti Jóhann Örn B. Benediksson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Pizzunnar, færslu í Facebook-hópi fyrir íbúa Mosfellsbæjar, þar sem hann baðst afsökunar á því sem miður hafði farið við opnun staðarins í Mosó. Tölvukerfi staðarins bilaði með þeim afleiðingum að pantanir viðskiptavina fóru í gegn, en bárust ekki með réttum hætti til starfsmanna staðarins.
Í samtali við fréttastofu segir Jóhann nú ætti að vera búið að laga þennan hnökra, sem var stór valdur í því að margt misfórst við opnun staðarins í síðasta mánuði.
„Við vorum að opna staðinn, en samhliða því vorum við að setja af stað nýja tölvukerfið okkar. Við gerðum upp úr því að vera með fólk úr heimabyggð á staðnum hjá okkur og fengum mikið af umsóknum frá fólki sem hefur aldrei starfað á pizzastað. Við auglýstum opnunina ekki neitt og settum þetta af stað,“ segir Jóhann.
Hann segir stjórnendur hjá Pizzunni ekki hafa áttað sig fyllilega á því hversu mikil eftirspurnin eftir nýjum pizzastað væri í Mosfellsbæ.
„Við áttum rosalega erfitt með að halda öllum boltum á lofti, auk þess að vera að þjálfa starfsfólkið okkar. Þegar mest var þá vorum við með tvöfalt fleira starfsfólk á þessum stað en á öðrum stöðum, því við vildum manna þetta það vel. Síðan komu upp vankantar við tölvukerfið og hlutirnir fóru svolítið úrskeiðis á okkar helstu álagspunktum,“ segir Jóhann.
Mosfellingar hafi átt skilið afsökunarbeiðni
Jóhann segir ástæðu þess að hann hafi birt afsökunarbeiðnina í hópi Mosfellinga vera þá að honum hefði borist til eyrna að þar inni gætti nokkurrar óánægju með það sem misfórst í starfsemi staðarins.
„Mér fannst Mosfellingar eiga skilið afsökunarbeiðni á því sem úrskeiðis hafði farið,“ segir Jóhann.
Hann segir viðtökurnar í bænum við staðnum hafa verið afar góðar, og að flestir viðskiptavinir hafi sýnt skilning á þeim vandamálum sem komu upp.
„Við tökum ábyrgð á þessu og sjáum hvað við hefðum getað gert betur. Við lærum öll af því.“
Nú sé Pizzan betur undirbúin til að takast á við þá miklu eftirspurn sem virðist vera eftir pizzum í bænum.
„Við erum bara ótrúlega spennt og ánægð að vera loksins búin að opna þennan stað. Þetta hefur lengi staðið til og dregist dálítið, en við erum rosalega spennt að vera komin í Mosfellsbæ.“