Íslenski boltinn

Ekki á því að dómaratuð hafi aukist en segir samfélagsmiðla mestu breytinguna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Guðmundsson ræddi við Erlend Eiríksson.
Guðjón Guðmundsson ræddi við Erlend Eiríksson. stöð 2 sport

Erlendur Eiríksson er að hefja sitt 21. tímabil sem dómari í efstu deild í fótbolta. Guðjón Guðmundsson hitti málarameistarann á dögunum og forvitnaðist meðal annars um undirbúning dómara og hvort tuð leikmanna og stuðningsmanna hefði færst í aukana.

„Við erum hluti af leiknum og þurfum að vera í standi eins og allir aðrir. Maður þarf alveg að hafa fyrir þessu. Þetta er ekki bara áhugamál. Við æfum svona fjórum sinnum í viku auk leikja,“ sagði Erlendur við Gaupa.

„Við þurfum að standast þrekpróf sem FIFA gefur út, alþjóðlegt próf sem er nokkuð strembið. Þetta eru miklar kröfur.“

Klippa: Viðtal við Erlend Eiríksson

Algengur fylgifiskur dómarastarfsins eru mótmæli leikmanna, þjálfara og stuðningsmanna liðanna sem eigast við.

„Ég get allavega haft áhrif á það sem er sagt á bekknum. En í stúkunni get ég ekkert aðhafst,“ sagði Erlendur. Hann er ekki á því að dómaratuðið hafi aukist með árunum.

„Ég upplifi það ekki. Þetta hefur alltaf verið svipað. Það eru kannski samfélagsmiðlarnir sem eru núna en ekki þegar ég byrjaði í þessu. Það borgar sig að sleppa að lesa það,“ sagði Erlendur.

Viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×