„Að fólk geti valið hvort það fylgi lögum, það er algjörlega ólíðandi staða sem við getum aldrei búið við,“ sagði Halldór Benjamín í samtali við fréttastofu eftir að fundi samninganefndar SA og ríkissáttasemjara lauk um klukkan tíu.
Tilefni fundarins var að ræða atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Sáttasemjari segist hafa boðað samninganefndir SA og Eflingar á fundinn en Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar hefur hafnað því að hafa fengið boð.
Efling hefur ekki viljað afhenda kjörskrá sína svo félagsmenn Eflingar geti greitt atkvæði um tillögu sáttasemjara.
„Úrskurður héraðsdóms, sem var kveðinn upp í gær og er alveg kristaltær, segir að miðlunartillagan sé lögleg að öllu leyti og það sem er mest um vert er að Eflingu er skylt að afhenda kjörskrá sína til að atkvæðagreiðsla um tillöguna geti farið fram,“ segir Halldór.
Í gær féll einnig dómur hjá Félagsdómi sem mat svo að verkfallsaðgerðir Eflingar á Íslandshótelum sem hefjast klukkan 12 á hádegi í dag séu löglegar.
„Þetta er mikill furðudómur, þar sem meirihluti dómins kemst að þeirri niðurstöðu að þau sem brjóta lög, þau sem fylgja ekki tilmælum héraðsdóms, geti hagnast á því að viðhalda ólögmætu ástandi. Það er nákvæmlega það sem Efling er að gera í dag. Ríkissáttasemjari hefur boðað þau til fundar en þau hafa sagt að þau geti það ekki sökum anna,“ segir Halldór.
„Ég þekki ekkert annað dæmi í vinnumarkaðssögunni þar sem stéttarfélag er í raun að gefa ríkisvaldinu baugfingurinn og neitað að mæta til fundar þegar þau eru boðuð.“
Hann segir augljóst að kjaradeilunni ljúki um leið og miðlunartillagan fer í atkvæðagreiðslu.
„Allt sem við kemur Eflingu er án fordæma og það er ástæða til að tortryggja og véfengja allt sem kemur úr þeim herbúðum.“