„Ég minni á að það er oft þannig þegar er málefnalegur ágreiningur að þá er hann gerður persónulegur. Þetta er ekki persónulegur ágreiningur og alls ekki af minni hálfu. Ég er bara að sinna skyldu minni sem embættismaður eins vel og ég get,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari í samtali við fréttastofu.
Þannig að þú telur þig ekki vanhæfan í þessu máli?
„Ég tel mig ekki vanhæfan í þessu máli, nei.“
Eins og áður segir lýsti Efling formlega yfir vantrausti á ríkissáttasemjara í morgun og krafðist þess að hann víki úr sæti. Segir í svari sáttasemjara við bréfi Eflingar: „Skemmst er frá því að sgeja að kröfunni er hafnað.“
Vísar ríkissáttasemjari til þess að héraðsdómur hafi í gær komist að þeirri niðurstöðu að Eflingu beri að afhenda kjörskrá sína svo hægt sé að leggja miðlunartillögu hans í atkvæðagreiðslu.
„Þeim úrskurði hefur Efling ekki sinnt og er mér því sá kostur nauðugur að freista þess að knýja fram afhendinguna með aðfararbeiðni. Þá aðfararbeiðni lagði ég fram hjá embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu í morgun,“ segir í svari Aðalsteins.
Hann segist þá ekki geta fallist á það að hann hafi tekið „eindregna afstöðu gegn Eflingu stéttarfélagi í fjölmiðlum“ eins og staðhæft er í bréfi Eflingar.
„Ég hef hins vegar krafist afhendingar kjörskrár Eflingar lögum samkvæmt en þeirri kröfu minni hefur Efling ekki sinnt - þrátt fyrir úrskurð dómara þar að lútandi,“ skrifar sáttasemjari í bréfinu.
„Ég hef í einu og öllu sinnt lagaskyldu minni í þessu máli. Þá hef ég í hvívetna gætt hlutlægni í mínum störfum nú sem endranær. Ég tel mig hæfan að lögum til að fara áfram með málið. Kröfu Eflingar um að ég víki sæti í vinnudeilu [við Samtök atvinnulífsins] er því hafnað.“