Íslenski boltinn

Ís­lenska veðrið bauð nýja Njarð­víkinginn vel­kominn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luqman Hakim fór á fyrstu æfinguna með Njarðvík í skafrenningi.
Luqman Hakim fór á fyrstu æfinguna með Njarðvík í skafrenningi. Instagram/@njardvikfc

Njarðvíkingar komu mörgum á óvart með að ná samning við knattspyrnumann sem var fyrir örfáum árum valinn einn af efnilegustu knattspyrnumönnum heims.

Luqman Hakim verður með Njarðvíkingum í Lengjudeildinni í sumar en hann kemur þangað á láni frá belgíska félaginu K.V. Kortrijk. Fyrir fjórum árum var hann á sextíu manna lista The Guardian yfir efnilegustu fótboltamenn heims.

Hakim er tvítugur Malasíumaður og er vanur miklum hita og raka en þekkir minna af frosti, snjó og skafrenningi.

Njarðvíkingar sýndu myndband af fyrstu æfingu stráksins og það er óhætt að segja að hann hafi fengið krefjandi aðstæður á gervigrasinu við Reykjaneshöllina.

Hakim var nýlentur á landinu og þurfti að drífa sig í takkaskóna og út á völl.

Í myndbandinu má sjá Hakim biðja til æðri máttarvaldi áður en hann stígur inn á völlinn í roki og snjókomu. Það sést líka þegar markið fýkur til á vellinum. Jú hann var að æfa í skafrenningi sem er þolraun fyrir marga ekki síst fyrir þá sem eru aldir upp mun sunnar á hnettinum.

Hakim getur huggað sig við það að leikirnir í sumar fara fram við mun betri aðstæður en þangað til fær hann að kynnast íslenska veðrinu frá fyrstu hendi.

Myndbandið af fyrstu æfingu Hakim er hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×