Erlent

Nýr vara­­for­­maður Í­halds­­flokksins segir árangur dauða­refsingarinnar 100%

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lee Anderson byrjar með trukki.
Lee Anderson byrjar með trukki.

„Já. Það hefur enginn framið glæp eftir að hafa verið tekinn af lífi. Þú veist það, er það ekki? Árangurinn er 100%.“ Þetta sagði nýskipaður varaformaður Íhaldsflokksins, Lee Anderson, í viðtali við Spectator sem birt var í gær. 

Um var að ræða svar við þeirri spurningu hvort hann væri fylgjandi dauðarefsingum.

Anderson, sem tók við embætti varaformanns á þriðjudag og hefur meðal annars það hlutverk að hafa viðhalda ímynd flokksins í fjölmiðlum, fór einnig ófögrum orðum um flóttafólk í viðtalinu. Sagði hann flóttafólk sjá Bretland í hyllingum og sem tækifæri til að flytja úr litlum „fokking“ tjöldum og inn á fjögurra stjörnu hótel. Réttast væri að láta breska flotann flytja það beint aftur yfir Ermasund.

Aðrir fulltrúar Íhaldsflokksins hafa neyðst til að stíga fram og ítreka að lögleiðing dauðarefsingarinnar sé ekki á stefnuskrá flokksins. Þá hafa þeir bent að viðtalið hafi verið tekið áður en Anderson varð varaformaður.

Ummæli Anderson voru einnig borin undir Rishi Sunak forsætisráðherra í morgun, sem sagði skoðanir varaformannsins hvorki endurspegla sínar skoðanir né formlega afstöðu Íhaldsflokksins. Hann sagði flokkinn hins vegar samtaka í því að vilja taka hart á glæpum.

Sunak var beðinn um að rökstyðja afstöðu sína til dauðarefsingarinnar en kom sér hjá því að útskýra hana siðferðilega. Sagði hann dauðarefsinguna einfaldlega ekki nauðsynlega lengur; viðurlög við verstu ofbeldisglæpum hefðu verið hert og fangelsisdómar lengdir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×