Hvalverndarsamtökin Whale and Dolphin Conservation fylgdust með siglingu skipsins og fengu samstarfsaðila í Japan, Life Investigation Agency, til að taka myndir af komu þess og uppskipun farmsins, sem sjá mátti í frétt Stöðvar 2:
Samtökin sendu síðan frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt var að hvalkjöt hefði endað sem hundamatur í Japan. Sagði að reynt væri að selja kjötið í matarsjálfsölum og þrýsta því inn í skólamötuneyti í von um að auka eftirspurn.
Samkvæmt útflutningstölum Hagstofu Íslands nam verðmæti þessa 2.576 tonna farms alls 2.771 milljón króna. Það þýðir 1.076 króna meðalverð á hvert kíló en telja má nokkuð víst hluti farmsins hafi verið eldri birgðir.

Til samanburðar má geta þess að þetta er svipað verð og fékkst í sama mánuði fyrir ferskan íslenskan eldislax á mörkuðum í Evrópu. Þannig nam meðalverð á útfluttum ferskum laxi til Frakklands í desember 1.043 krónum á kíló en verð á laxi hefur verið mjög hátt.
Þá er þetta einnig svipað verð og fékkst fyrir landfryst þorskflök í blokkum í Bretlandi í desember. Þar var meðalverð á kíló 1.042 krónur, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Þorskverð hefur sömuleiðis verið í hæstu hæðum.

Af frystiskipinu Silver Copenhagen er það annars að frétta, eftir siglingu frá Íslandi, suður fyrir Afríku og þvert yfir Indlandshaf, að það stefnir núna út á Kyrrahaf. Næsti áfangastaður þess, samkvæmt siglingasíðunni Marine Traffic, er bærinn Dutch Harbor í Alaska en þar er rekin umfangsmikil fiskvinnsla.
Bærinn Dutch Harbor er frægur fyrir það að vera sá eini í Bandaríkjunum, fyrir utan Pearl Harbor á Hawaii, sem orðið hefur fyrir loftárás óvinahers. Þar var bandaríski sjóherinn með flotahöfn á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Í júnímánuði árið 1942, hálfu ári eftir Pearl Harbor-árásina, réðust Japanir einnig á Dutch Harbor með tuttugu orustuflugvélum frá tveimur flugmóðurskipum.