Innlent

Boða verk­bann á fé­lags­fólk Eflingar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Vísir/Arnar

Atkvæðagreiðsla um boðun verkbanns á félagsfólk Eflingar hefst í dag meðal aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins. Verði verkbannið samþykkt mega SA banna öllu félagsfólki Eflingar sem starfar eftir samningum við samtökin að mæta til vinnu og fær það þá engin laun. 

Morgunblaðið greinir frá þessu. Atkvæðagreiðslan hefst í dag klukkan ellefu eftir upplýsingafund samtakanna og aðildarfélaganna. Henni líkur á morgun en verði verkbannið samþykkt hefst það eftir rúma viku, þriðjudaginn 28. febrúar. 

Verkbannið mun ná til um það bil tuttugu þúsund starfsmanna sem starfa eftir kjarasamningum Eflingar og SA. Í samtali við Morgunblaðið segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, að verkbannið sé algjört neyðarúrræði. 

Í yfirlýsingu SA vegna atkvæðagreiðslunnar um verkbannið segir að reynt hafi verið á þanþol þess samningsramma sem legið hefur fyrir en ófrávíkjanleg krafa Eflingar um að fá meiri hækkanir en fólk í sambærilegum störfum utan höfuðborgarsvæðisins sé óaðgengileg. 

„Í stað þess að Efl­ing lami starf­semi til­tek­inna fyr­ir­tækja og at­vinnu­greina með verk­föll­um fárra fé­lags­manna munu SA með verk­banni leit­ast við að stjórna fram­kvæmd vinnu­stöðvana og auka þrýst­ing á Efl­ingu að ljúka yf­ir­stand­andi kjaraviðræðum,“ segir í yfirlýsingu SA. 

Í gær slitnaði upp úr viðræðum SA og Eflingar en samninganefnd Eflingar sakaði SA um að sigla viðræðunum í strand. Reynt var til þrautar að ná saman um launatöflur en of mikið bar á milli deiluaðila og viðræðunum því slitið. Halldór Benjamín sagði í samtali við fréttastofu í gær að það væru mikil vonbrigði að hafa ekki náð samningum en samtökin hafi reynt allar leiðir til að ná samningum um helgina. 

Verkbanninu verður frestað muni Efling fresta boðuðum verkföllum en þau verkföll sem nú eru í gangi eru meðal þrjú hundruð starfsmanna Íslandshótela og Fosshótela, fimm hundruð starfsmanna Reykjavík Edition og Berjaya Hotels og sjötíu vörubílstjóra Olíudreifingar, Samskipa og Skeljungs. 

Þá hefur verið boðað verkfall hjá ræstingarfyrirtækjum, starfsmönnum í öryggisvörslu og öllum sem starfa á hótelum og gistihúsum. Atkvæðagreiðslu um það verkfall lýkur á hádegi í dag og verði það samþykkt hefst það á þriðjudaginn í næstu viku, sama dag og boðað verkbann. Nær það verkfall til 1.650 starfsmanna. 

Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsingu SA í heild sinni. 

„Í ljósi ár­ang­urs­lausra viðræðna í vinnu­deilu Efl­ing­ar og Sam­taka at­vinnu­lífs­ins (SA) hef­ur stjórn sam­tak­anna samþykkt ein­róma að efna til at­kvæðagreiðslu um verk­bann.

Um­svifa­mik­il verk­föll Efl­ing­ar munu lama ís­lenskt sam­fé­lag að stór­um hluta og valda gríðarleg­um kostnaði. Verk­bann er neyðarúr­ræði at­vinnu­rek­anda í vinnu­deil­um til að bregðast við verk­föll­um og er ætlað að lág­marka það tjón sem fyr­ir­tæki verða fyr­ir vegna aðgerða Efl­ing­ar. Verk­bann er sam­bæri­legt verk­falli og þýðir að fé­lags­fólk Efl­ing­ar mæt­ir ekki til starfa og launa­greiðslur falla niður.

Í stað þess að Efl­ing lami starf­semi til­tek­inna fyr­ir­tækja og at­vinnu­greina með verk­föll­um fárra fé­lags­manna munu SA með verk­banni leit­ast við að stjórna fram­kvæmd vinnu­stöðvana og auka þrýst­ing á Efl­ingu að ljúka yf­ir­stand­andi kjaraviðræðum.

Reynt hef­ur á þanþol þess samn­ingsramma sem legið hef­ur fyr­ir. Ófrá­víkj­an­leg krafa Efl­ing­ar um að fá meiri hækk­an­ir en fólk í sam­bæri­leg­um störf­um utan höfuðborg­ar­svæðis­ins er því miður óaðgengi­leg.

Sam­tök at­vinnu­lífs­ins geta ekki teygt sig lengra í átt til Efl­ing­ar án þess að koll­varpa þeim kjara­samn­ing­um sem hafa verið gerðir við öll önn­ur stétt­ar­fé­lög á al­menn­um vinnu­markaði en að baki þeim standa tæp­lega 90% starfs­fólks á al­menn­um vinnu­markaði. Það hníga eng­in rök að því að eitt stétt­ar­fé­lag fái langt­um meiri hækk­un á þess­um tíma en önn­ur. Stutt­um kjara­samn­ing­um er ætlað að bregðast við mik­illi verðbólgu og verja kaup­mátt al­menn­ings án þess að valda at­vinnu­leysi og langvar­andi verðbólgu­tím­um á Íslandi, lík­um þeim sem eldri kyn­slóðir muna vel eft­ir.

Þar sem viðræður við for­ystu Efl­ing­ar síðustu daga hafa ekki borið ár­ang­ur og Efl­ing hef­ur skipu­lagt og gripið til verk­fallsaðgerða sem raska öllu sam­fé­lag­inu, þá hef­ur stjórn SA samþykkt að leggja til at­kvæðagreiðslu um verk­bann á fé­lags­menn Efl­ing­ar. At­kvæðagreiðsla hefst um þetta neyðarúr­ræði meðal allra aðild­ar­fyr­ir­tækja SA á morg­un, mánu­dag­inn 20. fe­brú­ar kl. 11:00 að und­an­gengn­um upp­lýs­inga­fundi fyr­ir fé­lags­menn.

Verði verk­bannið samþykkt í at­kvæðagreiðslu tek­ur það gildi eft­ir 7 daga frá því að til­kynn­ing um það hef­ur verið send til Efl­ing­ar og sátta­semj­ara og er ótíma­bundið þar til samið hef­ur verið. Að sjálf­sögðu verða veitt­ar und­anþágur frá verk­bann­inu vegna mik­il­vægr­ar starf­semi í þágu sam­fé­lags­ins. Fresti Efl­ing boðuðum verk­föll­um munu Sam­tök at­vinnu­lífs­ins að sama skapi fresta verk­bannsaðgerðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×