Í þættinum fer Valdimar yfir æskuna, tónlistina, föðurhlutverkið og samband sitt við Önnu Björk Sigurjónsdóttur og margt fleira.
Valdimar og Anna eiga saman dreng sem kom í heiminn á síðasta ári. En söngvarinn sá ekki fyrir að hann myndi sjálfur eignast fjölskyldu á sínum tíma.
„Ég er mjög hamingjusamur maður. Fyrir nokkrum árum síðan hugsaði ég, ég verð kannski bara alltaf einn og það er allt í lagi. Sem er bara fínt og ég geri bara hlutina eins og þeir eru núna,“ segir Valdimar í samtali við Auðunn.
„Mér leið þannig, og mér leið ekkert illa með það þannig séð. Ég hugsaði alveg að það væri kannski gaman að eignast fjölskyldu og detta í þann pakka. Það er ekkert svo langt síðan að það að eignast fjölskyldu væri mjög fjarlægur möguleiki. En svo einhvern veginn gerðist það. Ég hitti stelpu sem mér fannst ótrúlega skemmtileg. Svo byrjum við saman og allt í einu er kominn lítill strákur og ég kominn með fjölskyldu. Allt hefur meiri vigt í dag.“
Hér að neðan má sjá brot úr síðasta þætti.