Fótbolti

Enginn er öruggur þegar fyrr­verandi eig­andi Leeds er nærri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leeds United náði aldrei flugi með Massimo Cellino sem eiganda.
Leeds United náði aldrei flugi með Massimo Cellino sem eiganda. Vísir/Getty Images

Hinn 66 ára gamli Massimo Cellino, fyrrverandi eigandi Leeds United og núverandi eigandi Brescia á Ítalíu, elskar að reka og ráða þjálfara. Segja mætti að það sé ástríða hans í lífinu.

Eftir að hafa mistekist að kaupa West Ham United tókst árið 2010 tókst Cellino loks að festa kaup á ensku knattspyrnufélagi þegar hann keypti meirihluta í Leeds árið 2014. Við tóku þrjú mögur ár þar sem reglulega var skipt um þjálfara ásamt því að Cellino var ítrekað í fréttum vegna skatta- og fjárhagsvandræða.

Hann seldi hlut sinn í Leeds árið 2017 og keypti í kjölfarið B-deildarlið Brescia. Hann var því eigandi liðsins þegar það fékk Birki Bjarnason og Hólmbert Aron Friðjónsson í sínar raðir árið 2020.

Segja má að lítill stöðugleiki hafi ríkt hjá Brescia síðan Cellino eignaðist liðið en líkt og hjá Leeds eru þjálfarar reknir ótt og títt. Á sínu fyrsta tímabili, 2017-18, réð hann alls fjóra þjálfara. Fíflagangurinn hefur haldið áfram og náði líklega nýjum hæðum á þessari leiktíð eins og blaðamaðurinn James Horncastle greindi nýverið frá.

„Brescia rak [Pep] Clotet, réð [Alfredo] Aglietti, rak hann þremur vikum seinna til að ráða Clotet aftur og reka hann. Réð [Davide] Possanzini, rak hann eftir tvo leiki og stefnir nú á að ráða [Daniele] Gastaldello.“

Brescia er í 19. sæti ítölsku B-deildarinnar með 25 stig að loknum 25 leikjum. Þó aðeins þremur stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×