Erlent

Á­kærður fyrir að leka ríkis­leyndar­málum

Atli Ísleifsson skrifar
Hinn 75 ára Claus Hjort Fredriksen var varnarmálaráðherra Danmerkur á árunum 2016 til 2019.
Hinn 75 ára Claus Hjort Fredriksen var varnarmálaráðherra Danmerkur á árunum 2016 til 2019. EPA

Saksóknari í Danmörku hefur birt fyrrverandi varnarmálaráðherra landsins, Claus Hjort Frederiksen, ákæru um að hafa lekið ríkisleyndarmálum sem varði þjóðaröryggi.

Frá þessu segir í fréttatilkynningu á vef ríkissaksóknara í Danmörku sem birt var í dag. Hjort Frederiksen neitar sök í málinu.

Málið snýr að því að árið 2020 staðfesti Frederiksen í viðtali við Weekendavisen og fleiri fjölmiðla að leyniþjónusta danska hersins, FE, hafi unnið saman með bandarísku þjóðaröryggisstofnuninni, NSA, að njósnum í gegnum ljósleiðara.

Hjort Frederiksen lét af þingmennsku í lok síðasta árs og missti þar með friðhelgi, en hefði hann enn setið á þingi hefði þingheimur þurft að greiða sérstaklega atkvæði um hvort ætti að ákæra hann. Hjort Frederiksen hefur sjálfur óskað eftir því að málið verði tekið fyrir til að hann geti hreinsað sig af málinu.

Vegna eðlis ákærunnar á Hjort Fredriksen að hámarki yfir höfði sér fjögurra ára fangelsi, verði hann fundinn sekur.

Hinn 75 ára Claus Hjort Fredriksen var varnarmálaráðherra Danmerkur á árunum 2016 til 2019. Hann var sömuleiðis fjármálaráðherra á árunum 2009 til 2011 og aftur frá 2015 til 2016. Hann átti sæti á danska þinginu frá 2005 til 2022.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×