Innlent

Sér ekki leið út úr deilunni

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segist á sinni starfsævi ekki hafa séð jafn harða kjaradeilu og nú er uppi milli samtakanna og Eflingar.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segist á sinni starfsævi ekki hafa séð jafn harða kjaradeilu og nú er uppi milli samtakanna og Eflingar. Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir kjaradeiluna sem samtökin standa nú í við Eflingu vera þá hörðustu sem hann hefur séð á sínum ferli. Hann segir deiluna sérstaklega snúna þar sem búið sé að semja við meginþorra verkalýðsfélaganna. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, var til viðtals í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Þar sagði hann það þungbært að hafa boðað til atkvæðagreiðslu meðal aðildarfélaga SA um verkbann á félaga í Eflingu, og að hann hefði fremur kosið að vera búinn að semja við Eflingu á þessum tímapunkti.

„Við höfum núna átt í kjaradeilu við Eflingu svo vikum og mánuðum skiptir. Ég er búinn að vera í þessu núna í tæp sjö ár. Á því tímabili hef ég sennilega komið að gerð 250 til 300 kjarasamninga, hef átt samskipti við þrjá mismunandi forseta ASÍ, tvo ríkissáttasemjara, tugi aðstoðarríkissáttasemjara og ég get bara sagt við ykkur að þessi kjaradeila er sú langharðasta sem ég hef séð á minni starfsævi, og höfum við þó séð margar harðar kjaradeilur.“

Og ég er eiginlega kominn á þann stað núna að maður sér ekki leiðina út úr þessu

Í síðustu viku hafi það verið tilfinning Halldórs Benjamíns að fundir deiluaðila hjá Ástráði Haraldssyni að hægt væri að leysa úr deilunni. Þegar á hólminn hafi verið komið hafi hins vegar borið mikið á milli aðila. 

Telja verkbann flýta fyrir samningaviðræðum

Á hádegi á þriðjudag í næstu viku hefjast verkföll Eflingarfólks í öryggisgæslu, hjá ræstingarfyrirtækjum og fleiri hótelum. 

„Ég er ekki viss um að allir séu búnir að kveikja á perunni hvað gerist þá. Þá er annars vegar starfsfólk ræstingarfyrirtækja að fara í verkfall, allir öryggisverðir líka, og til viðbótar öll hótel á starfssvæði Eflingar sem ekki er þegar búið að hefja verkfallsaðgerðir á.“

Það sé í ljósi þessara aðgerða sem stjórn Samtaka atvinnulífsins hafi tekið einróma ákvörðun um að boða verkbann á Eflingu. 

„Til þess í raun að flýta úrlausn þessarar vinnudeilu, þar sem í raun bara samfélagslegt tjón þeirra verkfalla sem eru komin til framkvæmda og eru komin til framkvæmda, mun meira og minna, hægt en bítandi, lama hér allt daglegt líf,“ segir Halldór Benjamín. Markmiðið sé þannig að komast aftur að samningaborðinu.

Geti ekki snúið sér við og samið á annan hátt við Eflingu

Halldór Benjamín segir verkbann annars vegar og verkföll hins vegar, vera sitt hvor hliðin á sama peningnum. Ef verkbanni sé rétt beitt geti það verið líklegt til að knýja viðsemjendur SA að samningsborðinu.

„Við gerum ekkert annað en að eiga í kjaraviðræðum og undirrita kjarasamninga. Í hverri lotu erum við að gera 130 til 150 kjarasamninga,“ segir Halldór Benjamín. Hann bætir við að hið sama gangi yfir alla viðsemjendur SA, hvort sem um sé að ræða verkafólk, verslunarmenn, iðnaðarmenn, blaðamenn eða aðra.

„Við höfum samið við alla og það eru allir sammála um að fara einhverja eina tiltekna leið, nema eitt stéttarfélag: Efling, undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sem vill fara aðra leið og knýja fram meiri kjarabætur en allir aðrir. Við sem stærsti viðsemjandi landsins getum ekki snúið okkur við og gert einhvern allt öðruvísi kjarasamning við eitt félag, þegar allir aðrir hafa samþykkt að fara tiltekna leið. Þar er þessi kjaradeila stödd,“ segir Halldór Benjamín.

Hér að neðan má heyra viðtalið við Halldór Benjamín í heild sinni.


Tengdar fréttir

Telur að til­laga um verk­bann sé þvingunar­að­gerð

Verkfallsboðanir Eflingarfélaga í öryggisgæslu, þrifum og á hótelum voru samþykktar í gær með nokkuð afgerandi meirihluta þeirra sem tóku þátt. Vinnumarkaðssérfræðingur hjá ASÍ segir afar sjaldgæft að atvinnurekendur nýti sér verkbannsvopnið í kjaradeilum til þvingunaraðgerða eins og nú sér gert

Hafa þurft að af­lýsa nokkrum pakka­ferðum vegna verk­fallsins

Icelandair hefur í nokkrum tilfellum þurft að aflýsa pakkaferðum Icelandair Holidays vegna verkfalls Eflingarstarfsfólks. Verkfallið hafi þó ekki haft áhrif á flugáætlun félagsins og ekki sé ráð fyrir gert að svo verði heldur í fyrirsjáanlegri framtíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×