Erlent

Eld­flauga­regn eftir blóðuga rassíu á Vestur­bakkanum

Kjartan Kjartansson skrifar
Aðgerð Ísraelshers í Nablus fór úr böndunum í gær. TIl skotbardaga kom á milli hermanna og vopnaðra Palestínumanna. Hermennirnir skutu meðal annars eldflaugum á byggingu þar sem þrír eftirlýstir menn voru innandyra.
Aðgerð Ísraelshers í Nablus fór úr böndunum í gær. TIl skotbardaga kom á milli hermanna og vopnaðra Palestínumanna. Hermennirnir skutu meðal annars eldflaugum á byggingu þar sem þrír eftirlýstir menn voru innandyra. AP/Majdi Mohammed

Ísraelsher segir að herskáir Palestínumenn hafi skotið sex eldflaugum frá Gasaströndinni á Ísrael í nótt. Svo virðist sem að eldflaugaárásirnar séu svar við blóðugri rassíu Ísraela sem urðu ellefu Palestínumönnum að bana á Vesturbakkanum í gær.

Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á eldflaugaskotunum. Ísraelsher segir að loftvarnarkerfi landsins hafi stöðvað fimm eldflaugar sem var skotið á borgirnar Ashkelon og Sderot. Ein eldflaug lenti á akri. Ísraelar svöruðu með loftárásum á skotmörk á Gasa en engar fréttir hafa borist af mannskaða þar.

Átök sem brutust út þegar ísraelskir hermenn réðust gegn þremur eftirlýstum Palestínumönnum í Nablus á Vesturbakkanum í gær eru ein þau blóðugustu í skærum sem hafa geisað í tæpt ár. Til skotbardaga kom á milli mannanna þriggja og hermanna en þeir síðarnefndur skiptust einnig á skotum við vopnaða menn í hverfinu.

Palestínsk heilbrigðisyfirvöld segja að á meðal þeirra látnu í gær sé sextán ára gamall piltur. Þrír palestínskir karlmenn á sjötugs og áttræðisaldri féllu sömuleiðis.

Ísraelsher segist rannsaka myndband sem virðist sýna hvernig tveir ungir og óvopnaðir menn á hlaupum frá vettvangi eru skotnir til bana.


Tengdar fréttir

Hand­tökur á Vestur­bakkanum enduðu með blóð­baði

Að minnsta kosti tíu Palestínumenn eru látnir og tugir eru særðir eftir að til átaka kom þegar ísraelskir hermenn gerðu rassíu í borginni Nablus á Vesturbakkanum í dag. Óttast er að átökin gætu leitt til enn frekari blóðsúthellinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×