Motson lagði hljóðnemann á hilluna fyrir fimm árum, árið 2018, eftir að hafa unnið hjá breska ríkisútvarpinu, BBC, í 50 ár, frá árinu 1968. Hann fór á tíu heimsmeistaramót, jafnmörg Evrópumót og fjallaði um 29 ensk bikarúrslit.
Með trega í hjarta tilkynnum við að John Motson OBE lést friðsamlega í svefni í dag, segir í yfirlýsingu frá fjölskyldu Motson.
Motson hóf feril sinn í útvarpi en byrjaði að vinna fyrir Match of the Day á BBC árið 1971 og vann að þættinum um árabil. Hann var fótboltarödd BBC í áratugi og var samofinn fótboltaupplifun Breta í áratugi.
Hann lýsti sínum síðasta leik árið 2018 fyrir Match of the Day, milli Crystal Palace og West Bromwich Albion árið 2018. Hann var heiðraður sérstaklega á vellinum eftir þann leik.
Motson var þá einnig lýsandi í FIFA tölvuleikjunum um árabil; fyrst í FIFA 97 og síðast í FIFA 19.
Í frétt BBC um andlát Motsons má sjá hápunkta frá ferli hans.