Sport

Fljótustu Ís­lendingarnir keppa í Istan­bul

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson bregða á leik á Meistaramótinu um síðustu helgi.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson bregða á leik á Meistaramótinu um síðustu helgi. Frjálsíþróttasamband Íslands

Ísland sendir tvo keppendur á Evrópumeistaramót innanhúss í frjálsum íþróttum sem fer fram í Istanbul í Tyrklandi í næsta mánuði.

Það eru fljótustu Íslendingarnir sem keppa í Istanbul en þau Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Kolbeinn Höður Gunnarsson keppa þar bæði í sextíu metra hlaupi.

Bæði hafa þau slegið Íslandsmetið í þessum greinum á þessu innanhússtímabili.

Guðbjörg Jóna bætti Íslandsmetið fyrst með því að hlaupa á 7,43 sekúndum 15. janúar en tíu dögum síðar hljóp hún síðan á 7,35 sekúndum á Aarhus Sprint 'n' Jump mótinu. Guðbjörg Jóna á nú fimm fljótustu 60 metra hlaup íslenskrar konu í sögunni.

Kolbeinn Höður sló Íslandsmet karla 12. janúar þegar hann hljóp á 6,68 sekúndum. Hann var þá að slá þrjátíu ára Íslandsmet sem Einar Þór Einarsson átti áður og var frá 1993. Kolbeinn er fæddur 1995 og gamla metið hans Einars var því tveimur árum eldra en hann sjálfur en það var upp á 6,80 sekúndur.

Kolbeinn hefur síðan hlaupið fjórum sinnum til viðbótar undir gamla Íslandsmetinu á þessu tímabili og á nú líka fimm fljótustu 60 metra hlaup íslensks karls í sögunni.

Evrópumótið fer fram frá 2. til 5. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×