Körfubolti

Hlynur fyrstur til að spila með A-lands­liðinu eftir fer­tugt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson í leiknum sögulega á móti Spáni í gær.
Hlynur Bæringsson í leiknum sögulega á móti Spáni í gær. Vísir/Hulda Margrét

Hlynur Bæringsson sló met Alexanders Ermolinskij í Laugardalshöllinni í gærkvöldi þegar hann snéri aftur í karlalandsliðið í körfubolta.

Hlynur er nú elsti leikmaður karlalandsliðsins í körfubolta frá upphafi.

Hlynur var 40 ára, 7 mánaða og 17 daga í leiknum í dag og sló þar með gamla metið um rúmlega þrjú ár.

Það var vel við hæfi að Hlynur hafi slegið metið á móti heims og Evrópumeisturum Spánar.

Alexander Ermolinskij lék sex leiki með íslenska karlalandsliðinu sumarið 1997 eftir að hann fékk íslenskan ríkisborgararétt.

Síðasti leikur hans var á móti Lúxemborg 7. júní 1997 en þá var Alexander 37 ára, 6 mánaða og 27 daga.

Þegar Hlynur lék sinn síðasta landsleik, á undan þessum, 21. ágúst 2019 þá var hann 37 ára, 1 mánaða og 16 daga. Hann var því farinn að nálgast metið þá.

Logi Gunnarsson var 36 ára, 7 mánaða og 21 dags þegar hann lék sinn síðasta landsleik árið 2018 og Jón Arnór Stefánsson var 36 ára, 5 mánaða og 1 dags þegar hann lék sinn síðasta landsleik árið 2019.

Leikurnn í gær þýðir jafnframt að landsliðsferill Hlyns spannar úr orðið 23 ár en hann lék sinn fyrsta A-landsleik á móti Makedóníu 23. febrúar árið 2000.

Birgir Örn Birgis átti um tíma bæði aldursmetið (33 ára, 4 mánaða, 16 daga) og lengsta landsliðsferilinn (16 ár, 8 mánaða og 23 daga), en Einar Bollason (34 ára, 2 mánaða, 17 daga) tók aldursmetið af honum. Alexander hafði síðan átt metið í rúmar aldarfjórðung áður en Hlynur sló metið í gærkvöldi.

Elstu landsliðsmennirnir:

  • 40 ára, 7 mánaða og 17 daga
  • Hlynur Bæringsson
  • 37 ára, 6 mánaða og 27 daga
  • Alexander Ermolinskij
  • 36 ára, 7 mánaða og 21 dags
  • Logi Gunnarsson
  • 36 ára, 5 mánaða og 1 dags
  • Jón Arnór Stefánsson
  • 36 ára, 1 mánaða og 18 daga
  • Guðmundur Bragason
  • 35 ára, 10 mánaða og 22 daga
  • Jakob Örn Sigurðarson
  • 35 ára, 1 mánaða og 3 daga
  • Pavel Ermolinskij



Fleiri fréttir

Sjá meira


×